Viðskipti innlent

Kúlulánafélag olíuforstjóra gjaldþrota

Framkvæmdastjórar hjá Glitni fengu milljarðalán til kaupa á hlutabréfum í bankanum árið 2008. Fréttablaðið/Valli
Framkvæmdastjórar hjá Glitni fengu milljarðalán til kaupa á hlutabréfum í bankanum árið 2008. Fréttablaðið/Valli
Einarsmelur 18, félag Einars Arnar Ólafssonar, forstjóra Skeljungs og fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Glitni, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Félagið var stofnað í maí árið 2008 og hélt utan um rúmlega 800 milljóna króna kúlulán sem Glitnir veitti Einari til kaupa á hlutabréfum í bankanum. Veðin voru bréfin sjálf. Þau urðu verðlaus með falli bankans í byrjun október sama ár og sitja aðeins skuldir eftir í félaginu. Skiptastjóri fékk félagið á borð sitt í síðustu viku og hefur hann lýst eftir innköllun krafna í búið.

Einarsmelur 18 hefur aðeins skilað inn ársreikningi fyrir árið 2008. Þar kemur fram að Glitnir veitti Einari lánið í evrum. Vaxtakjör koma ekki fram í ársreikningnum. Lán fyrrverandi starfsmanna Glitnis sem fengu sambærilega fyrirgreiðslu hjá bankanum báru rúmlega níu prósenta vexti. Lán Einars stóð við lok árs 2008 í 1,2 milljörðum króna. Eiginfjárstaða félagsins er neikvæð um jafn háa upphæð. Lánið var á gjalddaga fyrir tveimur árum.

Stjórn Íslandsbanka óskaði eftir því í maí í fyrra að níu stjórnendur Glitnis sem þáðu tilboð þáverandi vinnuveitanda síns um stofnun einkahlutafélaga í þeirra eigu og færðu inn í þau lán til hlutafjárkaupa gæfu þau upp til gjaldþrotaskipta. Heildarlánveitingar til félaganna níu námu 4,2 milljörðum króna. Ekki er útilokað að upphæðin hafi hækkað í samræmi við gengisþróun. Flest eru lán félaganna á gjalddaga á næsta ári.

Árni Tómasson, sem sæti á í stjórn Íslandsbanka, segir málið hafa verið sett í hendur lögfræðinga og þeirra að fara með kröfur á hendur félögunum. Hann telur ekki að gengið sé að þeim sem ekki hafi lent í vanskilum.

Einar brást við tilmælum stjórnar Íslandsbanka og óskaði eftir því að félag hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta um mitt síðasta ár. Hann vildi ekki tjá sig um málið í gær.

Eftir því sem næst verður komist hefur aðeins eitt annað félag fyrrverandi stjórnenda Glitnis verið tekið til gjaldþrotaskipta fram til þessa.

jonab@frettabladid.is
Árni Tómasson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×