Viðskipti innlent

Hannes Smárason krefur ríkið um bætur

Hannes Smárason
Hannes Smárason

Hannes Smárason hefur höfðað mál á hendur ríkissjóði vegna kyrrsetningar á eignum hans og fjármunum. Dómstólar felldu kyrrsetninguna úr gildi og krefst Hannes bóta á grundvelli þess.

Það var tollstjóri sem kyrrsetti eignir Hannesar að beiðni skattrannsóknastjóra vegna rannsóknar á meintum skattalagabrotum í rekstri FL Group. Farið var fram á kyrrsetningu á eignum að andvirði 150 milljóna, en einu eignirnar sem fundust voru tveir bílar, Lincoln Navigator og Range Rover, hvor metinn á fjórar milljónir, og bankainnistæður fyrir sjö og hálfa milljón. Það var allt kyrrsett.

Jafnframt voru eignir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Skarphéðins Berg Steinarssonar og Jóns Sigurðssonar kyrrsettar.

Kyrrsetningunni var síðan hnekkt bæði í héraðsdómi og Hæstarétti vegna þess að í lögum var ekki kveðið á um að kyrrsetja mætti eignir vegna gruns um brot á lögum um virðisaukaskatt – heldur einungis tekjuskatt.

Í lögum um kyrrsetningu er kveðið á um að við þær aðstæður skuli sá miski og það fjártjón sem kyrrsetningin olli bætt. Sé ekki hægt að sanna fjártjón geti dómari ákveðið skaðabætur að álitum. Skarphéðinn Berg hefur þegar höfðað mál af þessu tagi. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×