Viðskipti innlent

Greining Arion spáir 0,5 prósentustiga vaxtalækkun

Greining Arion banka spáir því að hinir virku vextir í dag; þ.e. veðlánavextir (repo) og hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum lækki um 50 punkta við næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans í byrjun febrúar.

„Þá spáum við því að innstæðuvextir (depo) lækki um 25 punkta - en þeir vextir skipta minna máli í dag en áður eins og sést á meðfylgjandi mynd. Veðlánavextir fara því úr 4,5% í 4%, vextir á innstæðubréfum fara úr 4,25% í 3,75% og innstæðuvextir lækka úr 3,5% í 3,25%," segir í Markaðspunktum greiningarinnar.

„Fátt hefur breyst frá síðasta stýrivaxtafundi Seðlabankans í desember. Enn eru horfur á lækkandi verðbólgu, lágu fjárfestingarstigi, háu atvinnuleysi og litlum hagvexti á þessu ári. Þá stefnir allt í að Seðlabankinn lækki hagvaxtarspá sína enn á ný vegna óvissu í tengslum við framkvæmd í Helguvík sem þýðir 1% minni hagvöxt á árinu 2012."

Þá kemur fram að hagvísar gefa því tilefni til áframhaldi á lækkun stýrivaxta, en nafnvextir eru um þessar mundir í sögulegu lágmarki, hið sama gildir þó ekki um raunvexti. Hinsvegar liggur fyrir að „yfirvofandi" afnám gjaldeyrishaftanna setur Peningastefnunefndinni þrengri skorður, sem endranær, og einhver óvissa ríkir því hversu stórt skref nefndarmenn eru tilbúnir að taka í ljósi þessa á fundinum 2.febrúar nk.

Greiningin telur að Seðlabankinn muni áfram þrengja vaxtaganginn, þ.e. þrengja bilið milli hæstu og lægstu vaxta Seðlabankans, til að draga úr sveiflum markaðsvaxta en inni í þessum vaxtagangi liggja millibankavextir.

„Við teljum hins vegar að Peningastefnunefnd muni ákveða að draga úr hraða vaxtalækkunar á meðan beðið er eftir að áætlun liggi fyrir um afnám hafta auk þess sem krónan hefur veikst undanfarið," segir í Markaðspunktunum.

„Þar sem „stóra planið" um afnám gjaldeyrishaftanna á að liggja fyrir í lok febrúar er ekki ólíklegt að Peningastefnunefndin stígi varlega til jarðar á jafnframt þeirra síðasta fundi fyrir þann tímapunkt. Enda yfirlýst stefna að fara með heldur hærri stýrivexti inn í afnámsferlið heldur en ekki. Þetta eitt og sér eykur líkurnar á því að dregið verði úr hraða vaxtalækkunarferlisins strax á næsta fundi - og gæti niðurstaðan því orðið vonbrigði hjá sumum."

Þá segir að frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi hefur krónan veikst um ríflega 4%. Þessi veiking krónunnar gæti haft áhrif á ákvarðanir nefndarmanna, enda stendur skýrt í yfirlýsingu Peningastefnunefndar: „eitthvert svigrúm til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds að því gefnu að gengi krónunnar haldist stöðugt eða styrkist og að verðbólga hjaðni."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×