Viðskipti innlent

Mat greiningar: Ágætar horfur hjá Marel

„Uppgjör Marels ber með sér þá jákvæðu þróun sem hefur átt sér stað undanfarið en félagið hefur gengið í gegnum mikla endurskipulagningu. Horfurnar eru með ágætum enda félagið minna skuldsett en áður, þar að auki er það fjármagn á ódýrari kjörum og salan hefur tekið við sér á ný."

Þetta er mat greiningar Arion banka á uppgjöri Marel sem birt var í síðustu viku, bæði fyrir fjórða ársfjórðung og síðasta ár í heild. Tekjur félagsins aukast áfram milli ársfjórðunga og námu um 168 milljónum evra á fjórðungnum, af kjarnastarfsemi, sem er um 50% söluaukning milli ára.

Tekjur ársins 2010 voru um 582 milljónir evra samanborið við 435 milljónir árið áður af kjarnastarfsemi.

Þessi söluaukning sýnir jákvæða þróun hjá félaginu en það sem skiptir einna helst máli er að samhliða þessari aukningu hafa hagræðingaaðgerðir skilað sínu og framlegðin því á pari við langtímamarkmið félagsins.

„Stjórnendur félagsins eru bjartsýnir á framhaldið og vísa t.d. í pantanbókina en hún stóð í 162 milljónum evra í lok 4. ársfjórðungs 2010 samanborið við 105 milljónir evra í byrjun síðasta árs," segir í Markaðspunktum greiningarinnar.

„Ný fjármögnun félagsins var kláruð í lok seinasta árs að upphæð 350 milljónir evra á 320 punktum yfir LIBOR, félagið er því komið með hagstæðari fjármögnun en áður. Áhrifa vegna lægri fjármagnskostnaðar gætir aðeins lítillega á seinasta ári þar sem fjármögnunin var kláruð síðla árs en mun gæta að fullu á þessu ári og því styðja við arðsemi félagsins."

Í lok nóvember á seinasta ári tryggði Marel sér nýja fjármögnun að upphæð 350 milljónum evra, meðal vaxtakjörin eru 320 punktum yfir EURIBOR/LIBOR í upphafi en geta farið lækkandi með bættri skuldastöðu félagsins.

„Með þessari nýju fjármögnun er ljóst að fjármagnskostnaður félagsins lækkar umtalsvert. Fjármagnskostnaður samstæðunnar var um 43 milljónir evra á seinasta ári og þar af 28 milljónir vextir af lántöku. Það gera rúmlega 8% af meðalstöðu vaxtaberandi skulda á seinasta ári. Fjármagnskostnaður mun því lækka á þessu ári samanborið við árið áður enda fjármagnið á hagstæðari kjörum," segir í Markaðspunktunum.

"Félagið skuldaði áður um 130 milljónir evra í íslenskum krónum samanborið við um 7 milljónir evra í dag. Skuldsetning félagsins hefur einnig minnkað töluvert."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×