Viðskipti innlent

Megnið fer á fiskiflotann og bílana

Níu af hverju tíu lítrum af innfluttu eldsneyti eru notaðir við fiskveiðar og í samgöngum, að því er fram kemur á vef Orkuseturs. „Þessir tveir flokkar nota álíka mikið en hlutur samgangna hefur þó farið vaxandi með auknum fjölda bifreiða,“ segir þar og bent er á að fjöldi bíla hér á landi hafi farið úr 70 þúsund bifreiðum árið 1974 í 200 þúsund bíla árið 2004.

„Árleg olíunotkun farartækja hér á landi er um 200 þúsund tonn sem er um 650 kílógrömm á hvern íbúa landsins,“ segir jafnframt á vef Orkuseturs og bent á að í einni olíutunnu séu um 120 kíló af olíu. Því þurfi að flytja inn tæplega sex tunnur fyrir hvern landsmann á ári hverju vegna notkunar í samgöngum.

Þá segir á vefnum að mjög mikilvægt sé að leita allra leiða til að draga úr eldsneytisnotkun. „Í fyrsta lagi er olíukostnaður stærsti orkuútgjaldaliður meðalheimila og í öðru lagi leiðir brennsla olíu til útblásturs gróðurhúsaloftegunda. Brennsla jarðeldsneytis stuðlar að neikvæðum loftslagsbreytingum sem eru að verða stærsta sameiginlega umhverfisógn heimsins. Við bruna jarðefnaeldsneytis, sem að mestum hluta er kolefni, myndast mikið af koldíoxíði (CO2). Koldíoxíð er ein þeirra lofttegunda sem valda auknum gróðurhúsaáhrifum en 70 prósent af útblæstri koldíoxíðs eru tilkomin vegna brennslu jarðefnaeldsneytis.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×