Viðskipti innlent

Glæsibílar og flugferðir fyrir eiginkonur hjá FL Group

Hannes Smárason var forstjóri FL Group.
Hannes Smárason var forstjóri FL Group.

Fyrrverandi hluthafi í FL Group segir allt á huldu í hvað þeir sex komma tveir milljarðar króna fóru sem efnahagsbrotadeild fær nú til rannsóknar vegna meintra skattalagabrota. Hann segir FL Group hafi verið spilaborg og bréf fyrirtækisins hafi verið notuð til að tæma bankana innanfrá.

Glæsibílageymsla í Skeifunni, flugferðir fyrir starfsmenn og eiginkonur þeirra, dagpeningar fyrir stjórnendur. Þetta er ekki lýsing á bandarísku stórfyrirtæki því svona er starfsemi fyrirtækisins FL Group lýst af fyrrverandi hluthöfum fyrirtækisins og þessu hefur jafnframt ekki verið neitað í bréfi til hluthafa frá þáverandi stjórnarformanni. Fyrirtækið sem var skráð almenningshlutafélag vildi hins vegar aldrei upplýsa um hversu háar fjárhæðir hefðu farið í flugferðir, lúxusbíla og dagpeninga fyrir starfsmenn.

Spilaborg sem hrundi við fyrsta áblástur

Fyrirtækið breytti um nafn og heitir Stoðir og er nú eftir samþykkt nauðasamninga aðeins lítil skrifstofa í Hátúni með tvo starfsmenn og að fullu í eigu kröfuhafa. Fréttastofa greindi frá því í gær að 6,2 milljarða króna rekstrarkostnaður FL Group á árinu 2007 færi nú til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra vegna meintra brota á skattalögum. Það sem er verið að skoða er m.a hvort látið hafi verið hjá líða að greiða af skattskyldum hlunnindum til starfsmanna. Vilhjálmur Bjarnason, lektor og fyrrverandi hluthafi í FL Group, fagnar því. „Auðvitað fagna ég því að þessi liður skuli vera kominn í alvarlega rannsókn en það er auðvitað ennþá erfitt fyrir fyrrverandi hluthafa að fá upplýsingar. Þeir fá mjög takmarkaðar upplýsingar og fá mjög takmarkaðan aðgang að félaginu," segir Vilhjálmur. Vilhjálmur segir eðlilegt að lífeyrissjóðirnir, sem voru stórir hluthafar, fari í þessi mál og óski eftir upplýsingum. Hann segir fyrirtækið hafa verið spilaborg.

„Þetta var spilaborg, hún hrundi við fyrsta áblástur og var í rauninni hrunin löngu áður. Og hlutabréf í þessu félagi voru m.a notuð í að tæma bankana því þau voru seld í framvirkum samningum inn í bankana og þeir sátu uppi með þau. Þetta var bæði spilaborg og bréfin voru notuð til þess að tæma bankana innanfrá," segir Vilhjálmur.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×