Viðskipti innlent

Viðskiptavinir Tal ákveða hvað þeir vilja borga

Tal býður nú viðskiptavinum sínum nýja þjónustu sem felst í að viðskiptavinurinn ákveður hversu hárri upphæð hann vill verja á mánuði í samskiptaþjónustu, þ.e. heimasíma, farsíma og nettengingu. Í sérstakri reiknivél á vef Tals birtist þá sú þjónusta sem hægt er að veita fyrir þá upphæð.

Í tilkynningu segir að í kjölfarið getur viðskiptavinurinn fínstillt þá þjónustu sem hann óskar eftir og sent Tali tilboð út frá þeim forsendum.

Eftir það verður reikningurinn frá Tali ávallt sú upphæð mánaðarlega sem samið var um og símreikningar koma ekki lengur á óvart um hver mánaðarmót (með ákveðnum undantekningum þó, eins og t.d. símtölum erlendis, símtölum í þjónustunúmer o.þ.h.). Viðskiptavinirnir ráða með öðrum orðum hvað þeir borga.

„Markmiðið með þessu er að hjálpa viðskiptavinum okkar að ná betri stjórn á heimilisbókhaldinu, enda verður kostnaður við samskipti nú föst tala um hver mánaðarmót. Margir þekkja það að fá hærri símreikning en þeir gerðu ráð fyrir. Með þessari þjónustu er það úr sögunni, því þótt notkunin fari yfir áætlað magn einstaka sinnum hækkar reikningurinn ekki, enda virðum við samninga sem við gerum við viðskiptavini okkar.," segir Viktor Ólason, forstjóri Tals.

„Fjarskiptamarkaðurinn hér á landi hefur gengið allt of mikið út á að flækja hlutina og þessu viljum við breyta. Hvað er einfaldara en að greiða eitt fast gjald sem viðskiptavinurinn sjálfur ákveður að sé sanngjarnt?"








Fleiri fréttir

Sjá meira


×