Handbolti

Guðmundur: Dómararnir tóku af okkur sjö víti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari var ekki sáttur með serbnesku dómarana eftir 24-27 tap á móti Þjóðverjum í fyrsta leik liðsins í milliriðli á HM í handbolta í kvöld. Guðmundur var í viðtali við Hörð Magnússon, íþróttafréttamann Stöðvar 2 Sport, eftir leikinn.

„Varnarleikurinn var ekki næginlega sannfærandi og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Við það bætist að þeir skoruðu alltof mikið úr hröðum upphlaupum," sagði Guðmundur.

„Við komum til baka í síðari hálfleik og lögðuðum varnarleikinn en það dugði ekki til. Við vorum komnir ansi nálægt þeim en það vantaði upp á að við næðum að fylgja því eftir," sagði Guðmundur.

„Þjóðverjar spiluðu mjög vel og við náðum okkur ekki næginlega á strik í sókninni í síðari hálfleik. Við erum að skora einhver ellefu mörk á þá í síðari hálfleik og það er bara of lítið," sagði Guðmundur.

„Við getum sjálfum okkur um kennt en við erum hundsvekktir með dómara leiksins og skiljum ekki þessa dómgæslu. Okkur finnst að það hafi verið tekin af okkur einhver sjö víti og það eru líka tekin af okkur mörk þegar þeir flauta á óskiljanlegan hátt þegar við erum að koma boltanum í netið. Það var líka dæmdur ruðningur á Alexander Petersson sem var algjört rugl," sagði Guðmundur og bætti við: „Þeir geta skoðað þetta á myndbandi og þá sjá þeir hvað var í gangi hérna," sagði Guðmundur.

„Við erum mjög svekktir með dómgæsluna en við þurfum fyrst og síðast að kíkja á varnarleikinn okkar því það tók okkur of langan tíma að fá hann í gang. Nú er bara að halda áfram og taka næsta leik. Við förum ekki í gegnum þessa heimsmeistarakeppni taplausir þannig að við erum því búnir að taka það út," sagði Guðmundur en íslenska liðið mætir Spánverjum í næsta leik á mánudaginn.

„Spænska liðið er ógnarsterkt og þeir unnu Norðmenn hérna áðan. Þegar þú ert kominn þetta langt þá þarftu að spila frábærlega í hverjum leik. Þetta eru frábær lið sem við erum að mæta núna og með betri handboltaliðum í heiminum í dag. Þegar þú ert kominn í milliriðill þá mætir þú góðum liðum því það eru ekkert eftir nema góð lið þar," sagði Guðmundur að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×