Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóð skortir lagaheimild til færa niður lán

Íbúðalánasjóð skortir heimild í lögum til að afgreiða umsóknir um niðurfærslu fasteignalána. Velferðarráðherra segir að lagabreyting sé á leiðinni inn í þingið. Ljóst er að skuldarar þurfa að bíða töluvert lengur en vonir stóðu til þegar samkomulag um aðlögun fasteignalána var undirritað um miðjan janúar.

Þeir 33 milljarðar sem stjórnvöld hafa lagt sjóðnum til nægja ekki til að mæta þörfum sjóðsins, segir Sigurður Snævarr, ráðgjafi forsætisráðherra í efnahags- og atvinnumálum. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir að breyta þurfi lögum um Íbúðalánasjóð svo sjóðurinn hafi heimild til niðurfærslu fasteignalána. „Sú lagabreyting, sem er tillaga mín og ríkisstjórnarinnar, er á leiðinni inn í þingið en það er alveg klárt að staðið verður við samkomulagið eins og það er."

Um 47. grein laga um húsnæðismál [laga um ÍLS] er að ræða en hana má skilja þannig að einungis megi fella niður þann hluta láns sem þegar er sjóðnum tapaður. „Menn vilja styrkja þetta ákvæði um afskriftir til að framkvæmdin sé örugglega lögleg," segir Guðbjartur.

Spurður hvort þetta hefði ekki legið fyrir þegar skrifað var undir samkomulag um aðlögun fasteignalána um miðjan janúar segir Guðbjartur að það hafi verið álitamál hvort lagabreytingu þyrfti eða hvort heimild til afskrifta væri nægilega skýr.

Sigurður Snævarr segir að stjórnvöld hafi þegar lagt sjóðnum til 33 milljarða króna til að styrkja eiginfjárstöðu hans og mæta afskriftum. „En þeir þurfa meira og það þarf að ganga frá lögum til að hægt sé að setja meira fé inn í sjóðinn."

Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri ÍLS, vildi lítið tjá sig um málefni sjóðsins þegar eftir því var leitað. Hann segir að verið sé að fullvinna verklagsreglur sem sé flókið. Hann segir ljóst að fyrstu umsóknir um niðurfærslu lána verði ekki afgreiddar fyrr en eftir tvær til þrjár vikur.

Frá því að samkomulagið var undirritað hafa 300 sótt um niðurfærslu lána en Sigurður á von á því að níu þúsund fasteignaeigendur muni sækja um áður en yfir lýkur. - shá










Fleiri fréttir

Sjá meira


×