Viðskipti innlent

Fasteignir í Reykjavík þær fjórðu ódýrustu í Evrópuborgum

Fasteignir í miðbæ Reykjavíkur, mældar í evrum, eru afar ódýrar í samanburði við aðrar borgir í Evrópu. Reykjavík er í fjórða neðsta sæti. Einungis í Búdapest, Skopje (Makedónía) og Chisinouv (Moldavía) er að finna lægra fasteignaverð.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningar Arion banka. Þar segir að þannig hafi 10% verðlækkun á fasteignamarkaði og 85% hækkun á evru gagnvart krónu frá árinu 2007 leitt til þess að íbúðaverð hér heima hefur fallið um 16 sæti á þremur árum á listanum yfir fasteignaverð í helstu borgum Evrópu og Rússlands.

Samkvæmt listanum er fasteignir langdýrastar í Mónakó og kosta nær 45.000 evrur á fermetrann. Næst á eftir kemur London með rúmar 17.000 evrur á fermetrann og Moskva er í þriðja sæti með um 14.000 evrur á fermetrann.

Í Reykjavík er fermetraverðið á listanum mælt á 1.650 evrur eða um 260.000 kr. á fermetrann. Í borginni Chisinouv sem er neðst á listanum er verðið í kringum 1.000 evrur á fermetrann.

Í Markaðspunktunum segir að þrátt fyrir að horfur á fasteignamarkaði hafi að mörgu leyti batnað á síðustu mánuðum þá er ljóst að framvinda í efnahagsmálum næstu mánuði og misseri mun skipta miklu máli.

Til skamms tíma hafa gjaldeyrishöftin jákvæð áhrif á eignaverð í landinu. Krónan helst stöðug í skjóli haftanna, peningarnir komast ekki úr landi og því eru eingöngu innlendir fjárfestingakostir í boði og höftin halda vöxtunum niðri.

Til langs tíma hafa gjaldeyrishöftin hins vegar neikvæð áhrif á eignaverð í landinu. Hagvöxtur til langstíma verður minni þar sem erfiðara verður að draga erlenda fjárfestingu inn í landið auk þess sem aðgengi að erlendum fjármálamörkuðum verður að öllum líkindum minna en ella.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×