Erlent

Íslenski jólasveinninn sá fimmti versti í heimi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stekkjastaur heilsar upp á börnin í Þjóðmenningarhúsinu.
Stekkjastaur heilsar upp á börnin í Þjóðmenningarhúsinu. mynd/ GVA.
Íslenski jólasveinninn er sá fimmti versti í heimi samkvæmt óvisindalegri úttekt danska blaðsins Jyllands Posten. Í umsögn blaðsins segir að á Íslandi séu þrettán jólasveinar sem séu vondir, bæði við dýr og menn. Einstakur kvikyndisskapur einkenni hvern og einn þeirra. Einn þeirra sé gluggagægir, annar bjúgnaþjófur og sá þriðji skelfi konur með því að kíkja undir kjólinn þeirra. Þá segir að jólasveinarnir þrettán eigi vonda móður, sem heiti Grýla og eigi jólakött. Grýla hati börn sem fái ekki ný föt í jólagjöf. Hún sigi því jólaketttinum á börnin og setji þau svo í pokann sinn.

Jólasveinar Norðurlandanna eru allir á lista yfir tíu verstu jólasveinana í heiminum. Sá finnski rekur lestina og er í tíunda sæti. Í fyrsta sæti er aftur á móti franski jólasveinninn, sem Jyllands Posten segir að sé hreint út sagt skelfilegur. Hann gangi um með sítt skegg og í svörtum kufli og berji börn með píski.

Þá er athyglisvert að ameríski jólasveinninn, sá jólasveinn sem er fyrirmynd flestra nútímajólasveina, er í áttunda sæti á listanum. Jyllands Posten segir að hann sé sannarlega sætur og vinalegur. Hann sæki hins vegar bara í peninga fólks með því að fá það til að kaupa kók.



Svona gerir Árni Björnsson þjóðháttarfræðingur jólasveinunum skil.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×