Viðskipti innlent

Líklegt að Seðlabankinn sporni við styrkingu krónunnar

„Sé horft til nokkurra ára er líklegt að Seðlabankinn muni sporna við verulegri styrkingu á gengi krónunnar með því að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir krónur."

Þetta kemur fram í Markaðfréttum Íslenskra verðbréfa. Seðlabankinn birti tölur um raungengi í lok síðustu viku og lækkaði það um 2,8% í janúar miðað við verðlag. Það lækkaði einnig í desember eftir að hafa hækkað nær óslitið eitt og hálft ár þar á undan.

Ástæða lækkunarinnar er veiking krónunnar og verðhjöðnun undanfarna tvo mánuði, en raungengið er reiknað út frá hlutfallslegu verðlagi milli Íslands og helstu viðskiptalanda og gengisþróunar. Raungengi krónunnar er því mælikvarði á samkeppnisstöðu innlendra atvinnuvega út á við.

Raungengið er um 19% undir meðaltali síðustu 10 ára og svipað sé miðað við undanfarin 30 ár.

„Óvarlegt er að búast við hraðri leiðréttingu raungengisins með tilheyrandi styrkingu krónunnar. Ástæða þess er sú að íslenska hagkerfið þarf á sterkri samkeppnisstöðu að halda til viðhalda miklum afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum svo unnt sé greiða vexti af erlendum skuldum hagkerfisins og greiða þær niður," segir í Markaðsfréttunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×