Viðskipti innlent

Útlit fyrir myndarlegan afgang af vöruskiptum í ár

„Útlit er fyrir að áfram verði myndarlegur afgangur af vöruskiptum. Verð á helstu útflutningsvörum okkar hefur hækkað undanfarin misseri og útlit er fyrir að það verði áfram tiltölulega hátt, þótt á móti komi að innflutt hrávara hefur líka hækkað talsvert í verði."

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um vöruskiptin í janúar en þau voru hagstæð um 8,5 milljarða kr,

„Þá er raungengi krónu enn verulega undir langtímagildum sínum og því ætti samkeppnishæfni innlendra atvinnuvega að vera með besta móti, auk þess sem vandséð er að verulegur vöxtur verði í innflutningi neysluvara næsta kastið. Í nýlegri hagspá sinni gerir Seðlabankinn ráð fyrir að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd muni nema 12% af vergri landsframleiðslu í ár og teljum við það raunhæft mat."

Fram kemur í Morgunkorninu að kippur í innflutningi hrá- og rekstrarvara annars vegar og fjárfestingarvörum hins vegar ásamt óreglulegum liðum í vöruútflutningi eru helstu skýringar á því að vöruskiptaafgangur skrapp saman í janúar frá fyrri mánuði.

Afgangurinn á vöruskiptum í nýliðnum mánuði var ríflega 8,4 milljörðum kr. samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar, en í desember var afgangurinn rúmir 13 milljarðar kr. Í sama mánuði í fyrra var afgangur af vöruskiptum hins vegar aðeins 5,8 milljörðum kr. þrátt fyrir að gengi krónu hafi þá verið u.þ.b. 10% veikara en í síðsta mánuði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×