Viðskipti innlent

Erlend verðbréfaeign lækkaði um 127 milljarða

Erlend verðbréfaeign innlendra aðila lækkaði um 127,3 milljarða kr. á milli áranna 2008 og 2009. Nam hún 914,8 milljörðum kr. í árslok 2009. Af þeirri upphæð voru 87% í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum.

Fjallað er um málið á vefsíðu Seðlabankans. Þar segir að alþjóðleg könnun á landaskiptingu erlendrar verðbréfaeignar hefur verið framkvæmd að frumkvæði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um nokkurra ára skeið.

Meginmarkmið könnunarinnar er að bæta upplýsingar um verðbréfafjárfestingu milli landa. 75 lönd skiluðu gögnum í þessa könnun fyrir árið 2009.

Á vefsíðunni er fjallað um helstu niðurstöður þessarar könnunar fyrir árið 2009 hvað Ísland varðar og einnig er gerður samanburður á þróun erlendrar verðbréfaeignar síðustu ár.

Um 75% af erlendri verðbréfaeign innlendra aðila var í Bandaríkjunum, Bretlandi, Írlandi, Lúxemborg og Noregi. Lífeyrissjóðirnir áttu 57% af allri erlendri verðbréfaeign innlendra aðila.

Þegar tölur áranna 2008 og 2009 eru skoðaðar er mikilvægt að hafa í huga að aðstæður í íslensku hagkerfi voru um margt óvenjulegar. Þannig hækkaði gengi erlendra gjaldmiðla t.d. um 80% árið 2008 og 7,6% árið 2009 gagnvart íslensku krónunni ásamt því að gripið var til gjaldeyrishafta seint á árinu 2008.

Verðbréfaeign innlendra aðila náði hámarki í árslok 2007. Er það sambærilegt við alþjóðlega þróun því sama ár náði verðmæti verðbréfa í heiminum einnig hámarki.

Erlend verðbréfaeign innlendra aðila í árslok 2007 var tæplega 2.000 milljarðar kr. Lækkun á gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni nam 12,1% árið 2007 og því eru þessar hækkanir að mestu tilkomnar vegna flæðis fjármagns frá Íslandi í erlendar eignir.

Erlend verðbréfaeign innlendra aðila lækkaði um 888 milljarða kr. á milli ársloka 2007 og 2008 eða um 60% af vergri landsframleiðslu ársins 2008. Helsta ástæða þessarar lækkunar var að erlend verðbréfaeign föllnu bankanna hafði verið veðsett að mestum hluta og rann því til erlendra kröfuhafa þegar samningar voru gerðir upp.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×