Viðskipti innlent

Sparisjóðirnir töpuðu 135 milljörðum á tveimur árum

Mynd/Stefán Karlsson

Afkoma sparisjóðanna hefur verið gagnrýnd lengi. Sparisjóðirnir töpuðu 135 milljörðum króna á árunum 2008 og 2009. Það er næstum þrefaldur hagnaður þeirra á árabilinu 2001 til 2007. Að meðaltali var hagnaðurinn 8,1 milljarður króna á ári. Inni í tölunum er tæplega 38 milljarða króna hagnaður í uppsveiflunni 2006 og 2007. Ef þessi frávik eru undanskilin nam meðalhagnaður sparisjóðanna tæpum fjórum milljörðum króna á ári.

Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða, segir skýringuna liggja í því undarlega samkeppnisumhverfi í viðskiptabankastarfsemi sem verið hafi við lýði í mörg ár.

„Með tilkomu umfangsmikillar fjárfestingabankastarfsemi viðskiptabanka á Íslandi minnkaði vægi reglulegrar starfsemi. Viðskiptabankarnir græddu svo mikið á eignum og fjárfestingabankastarfsemi að vaxtamunur eða aðrar tekjur í smásölu skiptu engu máli, vaxtamunur lækkaði og margs konar þjónusta, svo sem kreditkort, voru gefin í stórum stíl. Tekjumyndun varð mjög óeðlileg, sparisjóðir urðu að keppa við viðskiptabankana í verðum og neyddust því til að finna aðrar tekjuleiðir en felast í hefðbundnum inn- og útlánum," segi hann og leggur áherslu á að þótt þetta sé einfölduð mynd verði fólk að gera sér grein fyrir því að heildarmyndin verði að vera skýr áður en dómar séu felldir um það hvað eigi rétt á sér og hvað ekki.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×