Viðskipti innlent

Kaupréttarkröfu frænda Björgólfs hafnað fyrir dómi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað tæplega 200 milljóna kr. kaupréttarkröfu Guðmundar P. Davíðssonar í þrotabú Landsbankans. Guðmundur, sem er frændi Björgólfs Guðmundssonar fyrrum stjórnarformanns bankans, starfaði sem forstöðumaður fyrirtækjasviðs Landsbankans fram til ársins 2007.

Guðmundur gerði þá kröfu að kaupréttur hans yrði dæmdur sem forgangskrafa og til vara sem almenn krafa en dómurinn hafnaði báðum þessum kröfum.

Guðmundur hélt því m.a. fram til stuðnings kröfu sinni, að við starfslok hans hafi svo um samist að hann ætti að fá ,,kaupréttarsamninga að fullu uppgerða eftir að síðustu laun höfðu verið greidd, þ.e. eftir 2. mars 2008".

Fyrir dóminn komu vitnin Árni Maríasson, sem gegndi stöðu forstöðumanns á viðskiptasviði varnaraðila, Þór Kristjánsson, bankaráðsmaður, Atli Atlason starfsmannastjóri varnaraðila og Sigurjón Árnason fyrrum bankastjóri.

Allir báru þeir á sömu lund, að þeim væri ekki kunnugt um að samið hefði verið um annað við Guðmund en að kaupréttarsamningar þeir sem gerðir voru við hann skyldu halda gildi sínu, þótt Guðmundur hætti störfum, þrátt fyrir ákvæði 3. gr. kaupréttarsamninganna sem kveður á um að kaupréttur falli niður ef starfsmaður lætur af störfum. Ekkert ofangreindra vitna gat staðfest þá skoðun Guðmundar að hann hefði átt rétt á peningagreiðslu við starfslok, sem væri ígildi uppreiknaðs verðmætis kaupréttar samkvæmt kaupréttarsamningunum.

Í dóminum segir að samkvæmt ákvæðum kaupréttarsamninganna sjálfra, og með hliðsjón af vætti framangreindra vitna, verður ekki annað ráðið en að Guðmundur hafi eignast rétt til þess að kaupa ákveðinn fjölda hlutabréfa á ákveðnu gengi og gegn ákveðnu endurgjaldi á ákveðnu tímamarki. Landsbankinn var því einungis skuldbundinn til þess að afhenda Guðmundi hlutabréf gegn greiðslu frá honum.

„Hvorki er kveðið á um í samningum þessum né starfslokasamningi aðila að sóknaraðili (Guðmundur) eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila (Landsbankinn) vegna ákvæða í kaupréttarsamningunum. Með hliðsjón af framangreindu er ekki í ljós leitt að sóknaraðili hafi, á grundvelli framangreindra kaupréttarsamninga, eignast fjárkröfu á hendur varnaraðila," segir í niðurstöðum dómsins.

Framangreind niðurstaða leiðir þegar til þess að hafna verður kröfum Guðmundar, en auk þess verður ekki fram hjá því horft að sá réttur sem Guðmundur átti til þess að kaupa hlutabréf í Landsbankanum samkvæmt kaupréttarsamningunum, er niður fallinn. Sú niðurstaða er m.a. fengin í ljósi framburðar Atla Atlasonar sem gegndi stöðu starfsmannastjóra Landsbankans, en hann bar fyrir dómi að Guðmundur hefði aldrei tilkynnt, hvorki við starfslok né í annan tíma, að hann hygðist nýta sér áunninn kauprétt sinn og jafnframt boðið fram greiðslu á þeim hlutabréfum sem hann vildi kaupa.

Auk þess að hafna kröfum Guðmundar var honum gert að greiða Landsbankanum 400.000 krónur í málskostnað.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×