Viðskipti innlent

Þriðjungur atvinnulausra án vinnu í meir en ár

Gríðarleg breyting hefur orðið á fjölda þeirra sem hafa verið atvinnulausir í meira en ár og hafa þeir aldrei mælst fleiri en nú. Þannig höfðu 4.969 einstaklingar verið án atvinnu í meira en ár, eða sem nemur ríflega þriðjungi atvinnulausra, en á sama tíma í fyrra voru þeir 3.224 talsins eða um 21% atvinnulausra.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem gluggað er í nýjustu atvinnuleysistölurnar sem Vinnumálastofnun sendi frá sér fyrir helgina. Í Morgunkorninu segir að undanfarna mánuði hefur verulegur fjöldi einstaklinga verið atvinnulaus í meira en 6 mánuði.

Þannig voru alls 13.972 einstaklingar atvinnulausir í lok desember og hafði um 7.221 þeirra, eða sem nemur um 52%, verið án atvinnu í 6 mánuði eða lengur. Í lok desember fyrir ári voru 15.329 einstaklingar atvinnulausir og þar af um 49% sem höfðu verið án atvinnu í 6 mánuði eða lengur. Hefur því ekki mikil breyting orðið á hvað þennan fjölda varðar.

Ekki er við öðru að búast en að atvinnuleysi haldi áfram að aukast á næstunni. Er það einna helst vegna hefðbundinnar árstíðarsveiflu, en þar að auki eru vísbendingar um að slakinn í hagkerfinu láti einnig til sín taka.

Má hér benda á niðurstöður úr nýjustu viðhorfskönnun Capacent Gallup, sem gerð var í desember síðastliðnum á meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins og niðurstöður eru birtar um á heimasíðu SA. Þær gefa til kynna að enn syrti í álinn á næstu mánuðum á vinnumarkaði, en mun fleiri fyrirtæki höfðu í hyggju að fækka starfsmönnum en fjölga þeim, eða um 26% á móti 14%. Það er jafnframt heldur lakari niðurstaða en í síðustu könnun sem gerð var í september síðastliðnum.

Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysi komi til með að verða á bilinu 8,3% til 8,6% nú í janúar en á sama tíma fyrir ári síðan mældist það 9,0%. Mest fór það upp í 9,3% í febrúar/mars í fyrra og reikna má einnig með að atvinnuleysi komi til með að ná hámarkinu á árinu á þessu tímabili.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×