Viðskipti innlent

Vill fordómalausa umræðu um framtíð Orkuveitunnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Haraldur Flosi Tryggvason er stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.
Haraldur Flosi Tryggvason er stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.
„Það þarf ákveðinn vilja til að lesa ákveðna meiningu út úr þessu viðtali við mig aðra en þá að ég er fyrst og fremst að velta því upp að það er ekkert auðséð hvaða kostur er bestur til þess að reka orkufyrirtæki," segir Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, um viðbrögð minnihlutans í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur vegna viðtals í Morgunblaðinu um framtíð Orkuveitunnar.

„Ég vil nú flokka þetta undir heilbrigðar vangaveltur stjórnarformanns um það hvernig hag fyrirtækisins er best borgið," segir Haraldur Flosi. Hann þvertekur fyrir það að hann sé að boða algjöra einkavæðingu Orkuveitunnar. Hugsanlega megi þó skoða að sumir hlutar í starfsemi fyrirtækisins eigi heima nær almannaþjónustu en aðrir hlutir eigi ef til vill heima í einkavæðingu.

„Ég hef nefnt sem dæmi virkjanaframkvæmdir í þágu stóriðju og annað slíkt. Ég held að það þurfi að skoða það hvort það sé ásættanlegt að það sé eitthvað sem sé gert á ábyrgð borgaranna endalaust á meðan að aðrir þættir eins og veituframkvæmdir og annað slíkt ættu kannski bara best heima nær sveitarfélögunum," segir Haraldur Flosi.

Haraldur Flosi bendir þó á að stefna stjórnar Orkuveitunnar, í það minnsta meirihluta hennar, sé skýr. Það standi ekki til að einkavæða Orkuveituna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×