Handbolti

Ólafur með 100 stórmótsleiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur á ótrúlegan landsliðsferil að baki.
Ólafur á ótrúlegan landsliðsferil að baki. Fréttablaðið/Valli

Ólafur Stefánsson, fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins, hefur nú náð því að spila hundrað landsleiki fyrir Íslands hönd á stórmótum, sem er gríðarlegt afrek enda ná því ekki margir að spila hundrað landsleiki á ferlinum, hvað þá á stórmótum eins og HM, EM eða Ólympíuleikum.

Landsliðsfyrirliðinn þurfti reyndar ekki að hafa mikið fyrir hlutunum í hundraðasta leiknum eins og í mörgum hinna 99 leikja sem fóru þar á undan. Ólafur hvíldi allan leikinn á móti Frökkum en var á skýrslu og fær því þann landsleik skráðan á sig.

Ólafur er nú á sínu fimmtánda stórmóti með íslenska landsliðinu en hann hefur tekið þátt í sjö heimsmeistarakeppnum (53 leikir, 222 mörk), sex Evrópumótum (33 leikir, 184 mörk) og tvennum Ólympíuleikum (14 leikir, 72 mörk). Það eru að verða liðin sextán ár síðan hann tók þátt í því fyrsta en það var HM á Íslandi í maímánuði 1995. Ólafur skoraði þá 11 mörk í sjö leikjum íslenska liðsins en hefur síðan bætt við 467 mörkum á stórmótum.

Ólafur hefur skorað 4,8 mörk að meðaltali í leik í þessum hundrað stórmótaleikjum sínum en hann hefur skorað fimm mörk eða fleiri í 47 leikjanna, skorað átta mörk eða fleiri í átján leikum og alls brotið tíu marka múrinn sjö sinnum.

Ólafur hefur spilað flesta leikina undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar en leikurinn á móti Króatíu verður fimmtugasti stórmótaleikur hans undir stjórn Guðmundar. Hér fyrir neðan má finna staðreyndir um hundrað stórmótaleiki Ólafs.



Þátttaka Ólafs á stórmótum



Fjöldi skoraðra marka í leik:

10 mörk skoruð eða meira - 7 leikir

8-9 mörk skoruð - 11 leikir

6-7 mörk skoruð - 16 leikir

1-5 mörk skoruð - 60 leikir

Leikir án þess að skora - 6 leikir

Þátttaka eftir stórmótum:

HM 53 leikir/222 mörk (4,2 í leik)

EM 33 leikir/184 mörk (5,6 í leik)

ÓL 14 leikir/72 mörk (5,1 í leik)

Samtals 100 leikir/478 mörk (4,8 í leik)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×