Viðskipti innlent

FME: Öll fjármálafyrirtæki rannsökuð sem farið hafa í þrot

Vegna umræðu sem átt hefur sér stað undanfarið varðandi rannsóknir á fjármálafyrirtækjum sem farið hafa í þrot í kjölfar bankahrunsins í október 2008 vill Fjármálaeftiritið (FME) taka fram að þessi fjármálafyrirtæki eru og verða öll rannsökuð, þar með taldir viðskiptabankar, fjárfestingabankar og sparisjóðir.

Þetta kemur fram á vefsíðu eftirlitsins. Þar segir að strax eftir fall stóru viðskiptabankanna þriggja voru óháðir sérfræðingar fengnir til að gera athugun á þeim. Rannsóknir Fjármálaeftirlitsins frá þeim tíma hafa meðal annars verið byggðar á þessum athugunum.

Þá voru einnig fengnir óháðir sérfræðingar til að athuga starfsemi þeirra þriggja fjármálafyrirtækja sem næst urðu fyrir áfallinu, þ.e. Straums Burðaráss Fjárfestingarbanka hf., SPRON hf. og Sparisjóðabanka Íslands hf.

Fjármálaeftirlitið tók síðar þá ákvörðun að öll fjármálafyrirtæki sem fara í slitameðferð eða endurskipulagningu skyldu rannsökuð af óháðum sérfræðingum. Athugun fer fram eða hefur farið fram á VBS fjárfestingarbanka hf., Byr sparisjóði, Sparisjóðnum í Keflavík, Askar Capital hf.og Avant hf.

Um fjölda mála er að ræða og eru rannsóknir mislangt komnar. Fram til þessa dags hefur Fjármálaeftirlitið sent 54 mál til embættis sérstaks saksóknara og fleiri eru á leiðinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×