Handbolti

Fyrsta tap Füchse Berlin á leiktíðinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Felix Lobedank sækir hér að Alexander Peterssyni í leiknum í kvöld.
Felix Lobedank sækir hér að Alexander Peterssyni í leiknum í kvöld. Nordic Photos / Bongarts
Lærisveinar Dags Sigurðssonar töpuðu í kvöld sínum fyrsta leik á tímabilinu í þýsku úrvalsdeildinni. Liðið mætti þá Göppingen á útivelli og tapaði, 26-24. Kiel vann á sama tíma öruggan sigur á Hannover-Burgdorf.

Füchse byrjaði mjög vel og skoraði sex fyrstu mörk leiksins. Eftir stundarfjórðung var staðan 8-3 fyrir Berlínarbúa en þá virtist leikur liðsins einfaldlega hrynja. Liðið skoraði aðeins eitt mark á síðustu fimmtán mínútum fyrri hálfleiks og var þremur mörkum undir þegar sá síðari hófst, 12-9.

Heimamenn juku forystuna enn í síðari hálfleik og náðu mest sjö marka forystu. Füchse náði að saxa á forskot þeirra undir lok leiksins í tvö mörk en nær komst liðið ekki.

Alexander Petersson skoraði tvö mörk fyrir Füchse Berlin í kvöld, bæði í seinni hálfleik.

Kiel er því eina liðið sem er enn ósigrað í deildinni á tímabilinu en liðið vann í kvöld Hannover-Burgdorf með fimmtán marka mun, 34-19.

Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Kiel í leiknum en Hannes Jón Jónsson tvö fyrir Hannover-Burgdorf og þeir Vignir Svavarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson eitt hvor.

Kiel er í efsta sætinu með tólf stig eftir sex leiki en Füchse Berlin í öðru sæti ásamt Rhein-Neckar Löwen með átta stig. Füchse á þó leik til góða.

Göppingen vann í kvöld aðeins sinn annan sigur á tímabilinu en liðið er í tólfta sæti. Hannover-Burgdorf er í sextánda sæti með tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×