Viðskipti innlent

Arðsemi nýbygginga fer vaxandi að nýju

Greining Íslandsbanka segir að ljóst sé að arðsemi í nýbyggingu íbúða muni fara vaxandi á nýjan leik eftir að hafa dregist gríðarlega saman undanfarin misseri.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar en Hagstofan birti í morgun nýjar tölur um þróun byggingarvísitölunnar. Vísitalan sýnir að byggingarkostnaður jókst um 0,6% í janúar miðað við mánuðinn á undan.

Í Morgunkorninu segir að á meðan hratt hefur dregið úr tólf mánaða hækkun vísitölu byggingarkostnaðar hefur að sama skapi hægt verulega á verðlækkun íbúðarhúsnæðis. Þannig hafði verð á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu í desember síðastliðnum hækkað um 0,2% undangengna 12 mánuði m.v. vísitölu íbúðaverðs sem Þjóðskrá Íslands tekur saman. Til samanburðar var 12 mánaða lækkun íbúðarhúsnæðis 12% á sama tíma fyrir ári síðan.

„Haldi þessi þróun áfram er ljóst að arðsemi í nýbyggingu íbúða mun í kjölfarið fara vaxandi á nýjan leik eftir að hafa dregist gríðarlega saman undanfarin misseri. Þrátt fyrir að arðsemi nýbygginga íbúða leiti nú í átt að einhverskonar jafnvægi á nýjan leik má gera ráð fyrir því að mikið framboð óseldra íbúða og ónýttra lóða komi til með að halda aftur af íbúðafjárfestingu um nokkurn tíma í viðbót," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×