Viðskipti innlent

Hrein erlend skuldastaða ekki betri síðan 1989

Hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins hefur ekki verið jafn hagfelld frá fyrstu mælingum Seðlabankans sem ná aftur til ársins 1989. Staðan í lok þriðja ársfjórðungs í fyrra var "einungis" neikvæð um 24% landsframleiðslu ef búið er að taka út áhrif föllnu bankanna.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningar Arion banka. Þar segir að hrein erlend skuldastaða er mikilvæg stærð þar sem hún gefur okkur ágætis vísbendingu um hvort þjóðin geti staðið undir erlendum skuldbindingum sínum eða ekki.

„Neikvæðu fréttirnar eru hins vegar þær að staðan á eftir að breytast nokkuð á næstu misserum, væntanlega til hins verra. Sem dæmi mun eignarhlutur skilanefnda, skilgreindar í dag sem innlendur aðili, í nýju bönkunum á endanum færast að mestu leyti í hendur erlendra kröfuhafa sem hækkar erlendar skuldir þjóðarbúsins og verði Icesave að lögum mun nettó staðan versna sömuleiðis," segir í Markaðspunktunum

„Jákvæðu fréttirnar eru þær að ef við bætum þessum tveimur þáttum við jöfnuna verður staðan ekki svo slæm í sögulegu ljósi. Að samþykkja Icesave hefur einungis um 3-4% neikvæð áhrif á hreinu skuldastöðuna, en stundum vill gleymast að eignir dragast frá skuldbindingunni, að því gefnu að fyriráætlanir samninganefndar Íslands nái u.þ.b. fram að ganga.

Þegar hinsvegar eignarhlutur skilanefnda í nýju bönkunum færist í hendur erlendra kröfuhafa mun það veikja stöðuna um u.þ.b. 20% samkvæmt útreikningum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (89 milljarðar kr í Arion Banka, 100 milljarðar kr. í Íslandsbanka og helmingur í skuldabréfi nýja Landsbankans til þess gamla). Hreina erlenda staðan við útlönd verður því neikvæð í kringum 50-60% af landsframleiðslu ef báðar stærðirnar eru teknar með í reikninginn. Stærð sem er á pari við það sem tíðkaðist fyrir vöxt bankakerfisins."

Í Markaðspunktunum segir að þó verði að taka þessum tölum með ákveðnum fyrirvara enda ríkir töluverð óvissa um vissa þætti einsog eignir og skuldir innlendra fyrirtækja erlendis. Í því samhengi skiptir t.d. gríðarlegu máli hvernig staða einstakra einkafyrirtækja er og má velta því fyrir sér hvort þjóðin væri betur sett án þeirra. Það myndi án efa fegra bókhaldið en deila má um ávinning af slíku fyrir þjóðarbúið, einkum þar sem einkafyrirtækin afla síns gjaldeyris sjálf.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×