Viðskipti innlent

Stefnt á að klára kaupin á Sjóvá í vor

aðalstöðvar sjóvár Viðræður standa yfir um fjármögnun kaupa á helmingshlut í Sjóvá. Fréttablaðið/arnþór
aðalstöðvar sjóvár Viðræður standa yfir um fjármögnun kaupa á helmingshlut í Sjóvá. Fréttablaðið/arnþór

viðskipti Forsvarsmenn fjármálafyrirtækisins Stefnis hafa ekki lokið fjármögnun á kaupum á 52,4 prósenta hlut Seðlabankans í Sjóvá. Kaupverð hlutarins nemur 4,9 milljörðum króna. Viðræður eru hafnar við helstu viðskiptavini fjármálafyrirtækisins. Gert er ráð fyrir því að þær muni standa yfir næstu vikurnar.

Gangi allt eftir mun eignarhlutur Stefnis í Sjóvá heyra undir sjóðinn SF1 og verða engar aðrar eignir í honum. Ekki stendur til að kaupa meira í tryggingafélaginu.

Gert er ráð fyrir því að kaupin verði innsigluð á vordögum. Lífeyrissjóðir eru að mestu viðskiptavinir Stefnis auk fagfjárfesta.

Sjóvá var sett í söluferli í janúar í fyrra og var SF1 hluti af hópi fjárfesta sem lagði tilboð í félagið í fyrra. Hópurinn sagði sig frá ferlinu í lok nóvember og tóku forsvarsmenn SF1 upp þráðinn í desember síðastliðnum, að sögn Sigþórs Jónssonar, forstöðumanns Stefnis.

Fram kom í tilkynningu frá Seðlabankanum að miðað við kaupverðið næmi heildarverðmæti Sjóvár 9,4 milljörðum króna. Það er 2,2 milljörðum minna en ríkissjóður lagði til tryggingafélagsins til að forða því frá þroti vorið 2009. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×