Viðskipti innlent

Flestir telja að kreppunni ljúki árið 2015

Í skoðanakönnun sem Talnakönnun gerði seinni hluta janúar töldu flestir að kreppan endi árið 2015. Milli 15 og 20 prósent nefndu sérhvert ár á tímabilinu 2012 til 2015.

Vísbending fjallar um könnunina í nýjasta tölublaði sínu en Viðskiptablaðið vitnar í hana á vefsíðu sinni. Í könnuninni var spurt: Hvaða ár heldur þú að Ísland komist út úr kreppunni? Úrtakið var 673 einstaklingar og 73% svöruðu spurningunni.

Innan við 5% sögðu að kreppan væri yfirstaðin eða endaði á árinu 2011. Um 25% úrtaksins sögðu að hún endaði 2016 eða síðar og rétt tæplega 10% sögðu að hún endaði eftir 2020. Að meðaltali taldi hópurinn að kreppan endi um mitt ár 2015.

Í Vísbendingu er bent á að kreppan hafi nú þegar enst í rúmlega tvö ár. Samkvæmt öllum mælikvörðum fræðanna má segja að hér sé kreppa, hér hefur landsframleiðsla dregist saman átta ársfjórðunga í röð og samdráttur verið meiri en 10% eftir bankahrunið 2008.

Samkvæmt skilgreiningu hagfræðinga er kreppunni nú að ljúka, þar sem hagvöxtur mælist jákvæður tvo ársfjórðunga í röð. Hann mældist jákvæður á 3. ársfjórðungi 2010 samkvæmt tölum Hagstofunnar og spá Seðlabankans gerir ráð fyrir nokkrum bata en skrykkjóttum næstu misserin, að því er segir á vefsíðu Viðskiptablaðsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×