Viðskipti innlent

Rifja upp náin tengsl Usmanov og Landsbankans

Danskir fjölmiðlar hafa rifjað upp náin tengsl milli úzbeska auðjöfursins Alisher Usmanov og Landsbankans og Björgólfs Guðmundssonar fyrrum stjórnarformanns bankans. Þetta er gert í framhaldi af fréttum um handtöku Sigurjóns Þ. Árnasonsonar fyrrum bankastjóra Landsbankans.

Í umfjöllun Berlingske Tidende um handtöku Landsbankastjóra eru rifjaðar upp fréttir af samskiptum Usmanov og Kaupþings. Þessi samskipti voru áberandi í íslenskum fjölmiðlum nýlega eftir að í ljós kom að lánanefnd Kaupþings hafði samþykkt 240 milljarða kr. lán til Usmanov korteri fyrir hrun bankans haustið 2008.

Berlingske Tidende furðar sig á því að Kaupþing hafi íhugað að lána Usmanov þar sem Úzbekinn átti í mun nánara samstarfi við Landsbankann og þá sérstaklega Björgólf Guðmundsson fyrrum stjórnarformanns bankans.

Blaðið rifjar upp að það var Björgólfur Guðmundsson sem kynnti Usmanov fyrir þeim eigenda í enska úvalsdeildarliðinu Arsenal sem seldi Úzbekanum upphaflega stóran hlut í liðinu. Á þeim tíma var Björgólfur eigandi og stjórnarformaður í West Ham.

Þegar Usmanov ákvað að auka hlut sinn í Arsenal upp í 21% árið 2007 fyrir um 30 milljónir punda eða 56 milljarða kr. var það Heritable bank, dótturbanki Landsbankans í Bretlandi sem sá um þau kaup fyrir Usmanov.

Fjallað var um þessi viðskipti á sínum tíma í grein í breska blaðinu Guardian. Þar segir að þessi samskipti vekji þá spurningu hvort Björgólfur Guðmundsson hafi einnig komið á tengslum milli Usmanov og David Dein þegar Usmanov keypti upphaflega 14% í Arsenal af Dein.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×