Viðskipti innlent

Lögreglan rannsakar umdeilda millifærslu FL Group

Hannes Smárason, fyrrverandi stjórnarformaður FL Group.
Hannes Smárason, fyrrverandi stjórnarformaður FL Group.
Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsakar nú umdeilda millifærslu af reikningum FL Group frá árinu 2005 vegna gruns um fjárdrátt.

Stjórn FL Group eins og hún lagði sig sagði af sér og Ragnhildur Geirsdóttir, þáverandi forstjóri FL Group, sagði starfi sínu lausu árið 2005 eins og frægt er orðið.

Fram hefur komið að ástæða uppsagnar Ragnhildar hafi mátt rekja til þriggja milljarða króna millifærslu af reikningum FL Group inn á reikning hjá Kaupþingi í Lúxemborg sumarið 2005. Millifærslan var framkvæmd í apríl 2005 án vitunar og samþykkis Sigurðar Helgasonar, þáverandi forstjóra FL Group.

Ragnhildur sagði í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í fyrra að hún hefði fengið vitneskju um millifærsluna um það leyti sem hún tók við starfi forstjóra FL Group sumarið 2005. Málið hefur til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra frá árinu 2009. DV greinir frá því í dag að nú sé rannsóknin kominn á fullan skrið, m.a vegna ónafngreinds vitnis sem gaf skýrslu í fyrra sem mun hafa varpað nýju ljósi á málið.

DV greinir frá því að Hannes Smárason, þáverandi stjórnarformaður FL Group, hafi beðið Einar Sigurðsson, starfsmann fyrirtækisins, að stofna reikning hjá Kaupþingi í Lúxemborg örfáum dögum áður en milljarðarnir þrír voru millifærðir til Lúxemborgar.

Ragnhildur Geirsdóttir sagði í fyrra að hún hefði séð Excel-skjal frá Kaupþingi í Lúxemborg sem skilja mátti þannig að peningarnir hefðu verið millifærðir til Fons, félags Pálma Haraldssonar. Pálmi Haraldsson neitar því hins vegar að peningarnir hafi komið inn á reikninga Fons, eða reikninga annarra félaga í sinni eigu, en DV greinir frá því að grunur leiki á um að fjárdrátt hafi verið að ræða.

Ekki náðist í Gísla Guðna Hall, verjanda Hannesar Smárasonar í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×