Viðskipti innlent

Landsbankinn og Arion banki brutu lög

arion banki
arion banki

efnahagsmál Landsbankinn og Arion banki brutu gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Er þetta niðurstaða Neytendastofu eftir að Allianz Ísland hf. kvartaði til samtakanna yfir viðskipta­háttum bankanna tveggja við sölu á viðbótar­lífeyrissparnaði. Kemur þetta fram á vef Neytendastofu.

Kvartanir Allianz sneru að því að bankarnir væri að notast við úrelt útreikniforrit frá Allianz til þess að kynna fyrir viðskiptavinum sínum, eða væntanlegum viðskiptavinum. Útreikningarnir snerust um það hver kostnaðurinn væri við þjónustu Allianz samanborið við þjónustu bankanna.

Auk þess hefðu bankarnir sent út greinargerð sem ráðgjafar­fyrirtæki hefðu unnið fyrir Kaupþing og fjallað hefði um ágalla á kynningarefni Allianz. Kynningar­efninu hefði hins vegar verið breytt og því ættu athuga­semdirnar sem fram kæmu í greinargerðinni ekki lengur við.

Í niðurstöðu Neytendastofu segir að á auglýsendum hvíli mjög rík skylda til að gæta að því að allar forsendur og fullyrðingar séu réttar. Landsbankinn og Arion banki hefðu því átt að ganga vel úr skugga um að útreikningar á sparnaði Allianz væru réttir áður en þeir voru sendir út. Einnig hefðu þeir átt að kynna sér efni greinargerðarinnar betur, með tilliti til. kynningarefnis Allianz.- sv






Fleiri fréttir

Sjá meira


×