Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir geta keypt aflandskrónur á tombóluverði en...

Stjórnir lífeyrissjóða standa frammi fyrir ákveðnum vanda á næstunni. Þeim stendur til boða að kaupa krónur á tombóluverði en þurfa að nota erlendar eigur sínar til þess.

Samkvæmt áætlun um afnám gjaldeyrishafta er hægt að skipta svokölluðum aflandskrónum á mjög hagstæðu gengi svo framarlega sem krónurnar verði notaðar til langtímafjárfestingar hér á landi. Nefna má ríkisskuldabréf til 30 ára sem dæmi um slíka fjárfestingu.

Þetta gæti komið lífeyrissjóðunum vel enda eiga þeir eitthvað yfir 400 milljarða króna í erlendum eignum. Ef þeir nota, sem dæmi, 100 milljarða króna til að kaupa óþolinmóðar aflandskrónur með 25% afslætti eða meira gætu sjóðirnir uppfært bókaðar eignir sínar um að minnsta kosti 25 milljarða króna á einum degi.

Komið er inn á þetta í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa.  Þar segir í umfjöllun um afnám gjaldeyrishaftanna samkvæmt kynntri áætlun: „Einnig mun það freista lífeyrissjóðanna að færa fjármagn til landsins, því líklegt er að þeir muni geta keypt krónur á lágu verði. Þar sýnist sitt hverjum með tilliti til gengisáhættu og áhættudreifingar, en nú þegar er mjög stór hluti eigna lífeyrissjóðanna í íslenskum ríkistryggðum skuldabréfum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×