Viðskipti innlent

Íbúðaleigusamningar tvöfalt fleiri en fyrir hrun

Þrátt fyrir að dregið hafi töluvert úr fjölda þinglýstra leigusamninga um íbúðahúsnæði eru þeir samt enn tvöfalt fleiri en þeir voru fyrir hrunið haustið 2008.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um nýjar tölur um þinglýsta leigusamning sem Þjóðskrá Íslands birti í morgun.

Í Morgunkorninu segir að sé tekið mið af fyrstu 6 mánuðum ársins þá eru leigusamningarnir um 4,8% færri nú í ár en í fyrra og miðað við árið 2009 hefur þeim fækkað um 7,9%. Alls hefur verið þinglýst 4.372 leigusamningum um íbúðarhúsnæði á fyrri helmingi ársins.

Framangreind þróun er í takti við þróunina á fasteignamarkaði þar sem þinglýstum kaupsamningum um íbúðarhúsnæði fjölgar stöðugt frá síðustu tveimur árum.

Þó er óhætt að segja að enn sé töluverð sókn í leiguhúsnæði miðað við sem áður var. Þannig var að meðaltali 2.200 leigusamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst á fyrstu 6 mánuðum ársins fyrir hrun, þ.e. á árunum 2005-2008, eða um tvöfalt færri en nú í ár. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×