Viðskipti innlent

Atvinnuleysið mældist 6,7% í júní

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Atvinnuleysi á Íslandi mældist 6,7 prósent í júní og lækkaði um 0,7 prósentustig milli mánaða. Þá er atvinnuleysið 0,9 prósentustigum minna en á sama tíma í fyrra.

Rúmlega 11.700 voru atvinnulausir í júní og fækkaði atvinnulausum um tæplega áttahundruð og fimmtíu að meðaltali frá maímánuði, eða um 0,7 prósentustig. Algengt er að atvinnuástandið batni milli maí og júní vegna árstíðabundinna þátta, en í fyrra fór það úr 8,3 prósentum í 7,6 prósent.

Atvinnuleysið í síðasta mánuði er í takt við spá Vinnumálastofnunnar, sem hafði reiknað með að atvinnuleysið yrði á bilinu 6,7 til 7,1 prósent.

Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 675 að meðaltali en konum um 174. Atvinnulausum fækkaði um 366 á höfuðborgarsvæðinu og um 483 á landsbyggðinni. Atvinnuleysið var 7,6% á höfuðborgar-svæðinu en 5,1% á landsbyggðinni.

Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum 10,6%, en minnst á Norðurlandi vestra 2,3%. Atvinnuleysið var 6,8% meðal karla og 6,7% meðal kvenna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×