Viðskipti innlent

Spáir 1,7% verðbólgu í febrúar

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka í febrúar um 1,0% frá janúarmánuði. Gangi spáin eftir verður verðbólgan 1,7% í mánuðinum og lækkar úr 1,8% í janúar. Hagstofan mun birta vísitölumælingu sína kl.9 þann 24. febrúar næstkomandi.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að útsölulok vega allþungt í hækkun VNV að þessu sinni.

„Við gerum ráð fyrir að verðhækkun á fötum og skóm leiði til 0,24% hækkunar VNV í febrúar, og að samanlagt hafi hærra verð á nýjum varningi við útsölulok áhrif til u.þ.b. 0,5% hækkunar vísitölunnar. Þá hefur eldsneyti hækkað umtalsvert frá síðustu verðmælingu Hagstofunnar og leiðir það til 0,13% hækkunar VNV að mati okkar," segir í Morgunkorninu.

„Einnig er mikil hækkun landbúnaðarvara erlendis ásamt veikingu krónunnar frá áramótum farin að segja til sín í matvælaverði, og gerum við ráð fyrir að hærra verð fyrir mat- og drykkjarvöru hafi áhrif til 0,12% hækkunar VNV í febrúar. Húsnæðisliður VNV mun að öllum líkindum lítið breytast milli mánaða."

Nokkur verðþrýstingur er fyrir hendi til skemmri tíma litið vegna mikillar hækkunar á hrávöruverði erlendis og veikingar krónu frá áramótum. Auk þess munu útsölulok enn hafa einhver hækkunaráhrif í mars.

„Áætlum við að á heildina litið muni vísitala neysluverðs hækka um 2,1% milli janúar- og aprílmælinga hennar. Þó gerum við ráð fyrir að verðbólga muni haldast hófleg og reynast í grennd við 2,5% markmið Seðlabankans út árið. Spáum við því að verðbólga yfir árið 2011 reynist 1,9%," segir í Morgunkorninu.

„Spá okkar gerir ráð fyrir tiltölulega stöðugu gengi krónu, hóflegri hækkun launa og hækkun íbúðaverðs þegar fram í sækir. Óvissa tveggja fyrrnefndu þáttanna er fremur á þann veg að verðbólguþrýstingur vegna þeirra geti orðið meiri en hér er spáð, en óvissa síðastnefnda áhrifaþáttarins er að mati okkar frekar til þess að draga úr verðbólguþrýstingi á spátímanum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×