Viðskipti innlent

Raunstýrivextir 40% hærri en þeir voru fyrir hrunið

"Þrátt fyrir samdrátt í hagkerfinu, gjaldeyrishöft, gríðarlegt verðfall krónunnar og verðbólguskot, hefur raunstýrivaxtastig Seðlabankans verið 40% hærra að meðaltali eftir hrun en það var fyrir, sé horft 10 ár aftur í tímann. Nánar tiltekið voru 12 mánaða raunstýrivextir Seðlabankans að meðaltali um 2,5% frá janúar 2001 til október 2008, en 3,4% frá þeim tíma til dagsins í dag."

Þetta kemur fram í grein sem Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá GAMMA, skrifaði nýlega í Morgunblaðið og birt er á vefsíðu GAMMA. Raunstýrivextir eru jafnan taldir besti mælikvarðinn á peningalegt aðhald á hverjum tíma. Flestir hagfræðingar telja eðlilegt að raunstýrisvextir séu lágir þegar samdráttur er í hagkerfi en hærri í þenslu.

„Í dag eru 12 mánaða raunvextir Seðlabankans 4,8% eða næstum tvöfalt hærri en þeir voru að meðaltali áratuginn fyrir hrun. Það gerist þrátt fyrir stíf gjaldeyrishöft sem hefðu átt að vera ástæða til að ýta vaxtastiginu enn hraðar niður á við í ljósi lítilla áhrifa vaxtastigs á gengi krónunnar við þær aðstæður," segir Agnar.

„Afleiðingarnar hafa meðal annars verið þær að innlendir aðilar, þ.m.t. ríkissjóður og sveitarfélög hafa frá hruni neyðst til að fjármagna sig á umtalsvert hærri vöxtum en annars hefði verið nauðsynlegt.

Önnur afleiðing hárra raunvaxta sem ómögulegt verður að meta áhrifin af er að í skjóli hárra raunvaxta er í raun loku skotið fyrir fjárfestingu innanlands þar sem fæst fjárfestingaverkefni atvinnulífsins geta staðið undir núverandi raunvaxtastigi.

Nú mælist 12 mánaða verðbólga 1,8% sem er lægsta verðbólga frá árinu 2003. Þótt að Seðlabankinn lækki stýrivexti á næsta vaxtaákvörðunarfundi í byrjun febrúar um eitt prósentustig og verðbólga verði samkvæmt nýjustu spám markaðsaðila (nánar tiltekið Arion Banka; 0,6% í febrúar, 0,4% í mars og 0,2% í apríl), mun raunvaxtastigið enn verða um 4,2% í maí, enda hefur þá 12 mánaða verðbólga farið langt undir verðbólgumarkmið Seðlabankans, eða niður í 1,1%. Slíkt raunvaxtastig getur vart talist æskilegt í núverandi efnahagsumhverfi."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×