Handbolti

Kári: Eftir markið kom skita

Henry Birgir Gunnarsson í Linköping skrifar
Það hefur mikið verið látið með þá staðreynd að Kári Kristján Kristjánsson væri ekki búinn að skora á stórmóti. Stíflan brast þó gegn Japan í kvöld.

Eftir markið tóku þó við aðeins erfiðari tímar og blaðamaður Vísis stóðst ekki mátið og stríddi Kára aðeins en hann tekur öllu slíku afar vel.

"Eftir markið kom bara skita. Þetta var helvítis kæruleysi og ég skeit á mig í tveim skotum. Ég er ekki ánægður með það," sagði Kári léttur en hann bauð upp á hið fræga þungarokkarafagn sitt er hann skoraði með fyrsta skoti sínu í leiknum.

"Ég var búinn að segja að ég ætlaði að klára þetta alla leið og ég gerði það."

Þórir Ólafsson var jafnvel á því að það hefði komið smá ofmat hjá Kára eftir markið og því hefði hann misst dampinn í kjölfarið.

"Það er spurning. Svona eru Eyjamennirnir," sagði Þórir kíminn áður en Kári bað hann að hætta. Blaðamaður spurði í kjölfarið hvort Kári hefði haldið að þetta kæmi af sjálfu sér í kjölfarið?

"Ertu eitthvað geðveikur? Ég klúðraði bara tveim skotum og það kemur ekki fyrir aftur."

Félagar Kára í félagsskapnum Vinir Ketils bónda gáfu honum fyrr í dag leyfi til þess að skara fram úr eins einkennilegt og það hljómar. Kári var afar ánægður með það.

"Ég er feginn að þetta hafi komið fram því ég var tvístígandi með þetta. Nú get ég gefið í."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×