Viðskipti innlent

Intrafish gagnrýnir viðræður um sölu á Icelandic Group

Færibandavinna Í verksmiðju Pickenpack, dótturfélags Icelandic Group í Þýskalandi.
Færibandavinna Í verksmiðju Pickenpack, dótturfélags Icelandic Group í Þýskalandi.

Viðskipti Alþjóðlega sjávarfrétta- og greiningar­fyrirtækið Intrafish gagnrýnir harkalega viðræður og mögulega sölu Framtakssjóðs Íslands á erlendu verksmiðjuneti Icelandic Group til evrópska fjárfestingarsjóðsins Triton.

Í nýjum pistli Tom Seaman, blaðamanns fréttastofu Intrafish, er orðspor Íslands sagt að veði, verði verksmiðjurnar seldar Triton án þess að opnað verði á viðræður við fleiri. Hann segir virktavinavæðingu og tengsl stjórnmála og viðskipta hafa verið til siðs á Íslandi fyrir hrunið 2008. „Og söluferli Icelandic Group virðist ekki vera af öðrum meiði."

Seaman segir aðkomu Friðriks Jóhannssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Icelandic Group, sem hafði milligöngu um tilboð Tritons, auka á tortryggni og ýta undir samsæriskenningar um söluferlið.

Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Fjárfestingar­sjóðs Íslands, hefur ítrekað vísað á bug sögusögnum um aðkomu Íslendinga að Triton, og segir sjóðinn sjálfráðan um með hverjum hann kjósi að vinna, gangi sala í gegn. Ágúst Einarsson, stjórnarformaður Framtakssjóðsins, hefur einnig sagt að enginn hafi boðið jafn vel og Triton og því hafi verið gengið til viðræðna.

Náist ekki samkomulag kunni nálgunin að verða önnur þegar frekari skref verði tekin í sölunni á verksmiðjustarfsemi Icelandic Group. Viðræðum við Triton á að ljúka í þessum mánuði.- óká








Fleiri fréttir

Sjá meira


×