Viðskipti innlent

Þögn bankanna ósiðleg

Talsmaður neytenda segir stöðu skuldara hafa styrkst með lögum um ábyrgðarmenn sem tóku gildi fyrir tveimur árum. Hann segir ekki siðlegt hjá bönkunum að þegja yfir ákvæði sem skyldar þá til þess að meta hæfi skuldara.

Sagt var frá máli Brynjólfs Smára Þorkelssonar í fréttum Stöðvar 2 í gær en tengdafaðir hans losnaði undan 1700 króna ábyrgð Landsbankans vegna samkomulags viðskiptaráðherra við fjármálastofnanir frá árinu 2001. Þar segir að skuldarar sem fá meira en milljón að láni, verði að fara í greiðslumat.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, segir reyndar að í lögum um ábyrgðarmenn sem tóku gildi fyrir tveimur árum, sé milljón króna markið fellt út.

„Mér sýnist í fyrsta lagi samkomulagið frá 2001 vera endurnýjun á samkomulagi frá 1998 þannig að það er alveg möguleiki að eldri ábyrgðir falli undir svipaðar reglur. Síðan tóku gildi lög um ábyrgðarmenn fyrir tæpum tveimur árum þannig að nú er þetta lögbundið og án þessa lágmarks sem er milljón. Þannig að réttarstaða neytenda hefur heldur batnað ef eitthvað er undanfarið," segir Gísli.

Í fréttinni í gær kom fram að bankar séu ekkert endilega að láta fólk vita af þessu ákvæði, og það finnst Gísla varhugavert.

„Það er ekki siðlegt að þegja yfir þessu. Ég tel vert að kanna hjá hverjum og einum, annað hvort hjá talsmanni neytenda eða lögmönnum, hvort að fólk hafi greitt þetta upp án fyrirvara og hvort það eigi einhvern möguleika á endurupptöku þess máls af því að það vissi ekki um rétt sinn," segir Gísli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×