Viðskipti innlent

Heildarverðmæti skulda og hlutafjár um 64 milljarðar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hefur ekki upplýst þingið um sundurliðun á einstökum þáttum sölunnar.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hefur ekki upplýst þingið um sundurliðun á einstökum þáttum sölunnar. Mynd/GVA
Heildarverðmæti skulda og hlutafjár í samkomulagi Landsbankans og Framtakssjóðs Íslands um kaupin á Vestia nemur 64 milljörðum króna. Uppgefið kaupverð var 15,5 milljarðar en fjármálaráðherra hefur ekki upplýst þingið um sundurliðun á einstökum þáttum sölunnar.

Framtakssjóður Íslands gekk frá kaupum á eignarhaldsfélaginu Vestia af Landsbankanum hinn fyrsta desember á síðasta ári. Í kaupunum eignaðist Framtakssjóðurinn Icelandic Group, Teymi, Húsasmiðjuna og Plastprent. Uppgefið kaupverð var 15.5 milljarðar króna.

Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurnum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um málið kom fram að heildarverðmæti alls hlutafjár Icelandic Group sé 13,9 milljarðar króna. Hins vegar heldur Landsbankinn eftir 19% hlut í félaginu.

Þá kvaðst fjármálaráðherra ekki ætla að upplýsa um hvernig kaupverð annarra eignarhluta væri sundurliðað en umsamið kaupverð þeirra væri 4,25 milljarðar.

Þetta féll illa í þingmenn, bæði stjórnarliða og stjórnarandstæðinga, en þeir töldu sig eiga rétt á því að fá söluverð eigna í eigu ríkisbankans upplýst.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er kaupverð Teymis, í þeim útreikningum sem liggja að baki samkomulagi Framtakssjóðsins og Landsbankans um söluna Vestia, 3,7 milljarðar króna. Húsasmiðjan var seld á 500 milljónir króna og Plastprent á 50 milljónir. Hins vegar gefa þessar tölur ónákvæma mynd af kaupunum því á félögunum hvíla einnig skuldir.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er heildarverðmæti skulda og hlutafjárs í samkomulaginu um kaupin á Vestia 64 milljarðar. Þar af eru 42 í Icelandic Group en 22 í Teymi, Húsasmiðjunni og Plastprenti en þetta staðfestir Landsbankinn í samtali við fréttastofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×