Körfubolti

NBA í nótt: Níundi sigur Orlando í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwight Howard og Tyson Chandler í barátunni í nótt.
Dwight Howard og Tyson Chandler í barátunni í nótt. Mynd/AP
Orlando vann í nótt sinn níunda sigur í röð í NBA-deildinni í körfubolta er liðið lagði Dallas, 117-107.

Dallas byrjaði betur og komst sextán stigum yfir í fyrri hálfleik. En það dugði ekki til þar sem Orlando tók leikin í sínar hendur í síðari hálfleik.

Dwight Howard var með 23 stig og þrettán fráköst fyrir Orlando. Jason Richardson var með 20 og Jameer Nelson sextán.

Nýju mennirnir, Hedo Turkoglu (13 stig, 17 fráköst) og Gilbert Arenas (14 stig) náðu sér einnig vel á strik.

Dirk Nowitzky gat ekki leikið með Dallas vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik gegn Oklahoma City þann 27. desember. Shawn Marion skoraði átján stig fyrir Dallas og Jason Terry var með sextán stig og níu stoðsendingar.

Dallas hefur ekki unnið nema tvo leiki af sjö í fjarveru Nowitzky.

Chicago vann Boston, 90-79. Derrick Rose skoraði 36 stig og Carlos Boozer var með 22 og tíu fráköst.

Oklahoma City vann Memphis, 109-100. Kevin Durant skoraði 40 stig og Russell Westbrook bætti við 22 stigum og ellefu stoðsendingum fyrir Oklahoma City.

Detroit vann Philadelphia, 112-109, í framlengdum leik. Austin Daye setti niður þriggja stiga körfu þegar 3,5 sekúndur voru til leiksloka og tryggði Detroit framlenginu.

Charlotte vann Washington, 104-89. Stephen Jackson skoraði 21 stig fyrir Charlotte og DJ Augustin var með 20 stig.

Atlanta vann Indiana, 108-93. Josh Smith var með 27 stig í leiknum, þar af fjórtán í fjórða leikhluta. Joe Johnson var með 24 stig.

Milwaukee vann New Jersey, 115-92, þar sem afmælisbarnið Chris Douglas-Roberts skoraði 24 stig gegn sínum gömlu félögum í New Jersey.

Utah vann Houston, 103-99, í framlengdum leik. Paul Millsap skoraði 27 stig, þar af tólf í framlenginunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×