Viðskipti innlent

Útilokar ekki vaxtalækkun upp á 0,25 prósentur

Greining Íslandsbanka útilokar ekki að vaxtalækkun Seðlabankans síðar í vikunni muni aðeins nema 0,25 prósentustigum. Samt sem áður spáir greiningin því að vaxtalækkunin verði upp á 0,5 prósentustig.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að það sem ber hæst þessa vikuna á íslenskum fjármálamarkaði er vaxtaákvörðunardagur Peningastefnunefndar Seðlabankans næstkomandi miðvikudag en auk vaxtaákvörðunarinnar mun bankinn birta uppfærða spá frá því í nóvember.

„Reiknum við með því að nefndin ákveði að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur en útilokum ekki 25 punkta lækkun. Tvennt er helst að vegast á í þessari ákvörðun. Annars vegar er það hjöðnun verðbólgunnar sem ætti að hvetja til vaxtalækkunar og hins vegar lækkun gengis krónunnar undanfarið sem dregur eflaust úr vilja nefndarinnar til að lækka vexti bankans," segir í Morgunkorninu.

Ennfremur kemur fram að eftir síðustu vaxtaákvörðun lýsti nefndin því yfir að eitthvert svigrúm væri enn til staðar til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds héldist gengi krónunnar stöðugt eða styrktist, og verðbólga hjaðnaði eins og spáð var. Þó gerði nefndin þann fyrirvara að óvissa sé um hversu svigrúmið er mikið til skemmri tíma vegna áforma um afnám hafta á fjármagnshreyfingar.

Frá síðustu vaxtaákvörðun hefur verðbólgan haldið áfram að hjaðna og mælist nú 12 mánaða verðbólga 1,8% en hún hefur ekki verið minni frá því í mars árið 2004. Þó hefur gengi krónunnar lækkað nokkuð frá síðustu vaxtaákvörðun og verður nokkuð spennandi að sjá hvað nefndin segir við þeirri þróun.

„Eins og áður sagði reiknum við með því að Peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur næstkomandi miðvikudag. Lækka vextir á viðskiptareiknum innlánsstofnana og hámarksvextir innistæðubréfa við þetta í 3,0% og 3,75% hvor um sig, vextir á lánum gegn veði til sjö daga í 4,0% og daglánavextir í 5,0%. Við útilokum hins vegar ekki minni lækkun þ.e. lækkun um 0,25 prósentur," segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×