Viðskipti innlent

Breskt fyrirtæki tekur yfir Orkustöðina á Húsavík

Valur Grettisson skrifar
Orkustöðin á Hrísmóum við Húsavík.
Orkustöðin á Hrísmóum við Húsavík. Mynd / vefur Orkuveitu Húsavíkur.

Breska orkufyrirtækið Global Geothermal Ltd, hefur gert samkomulag við Orkuveitu Húsavíkur (OH) um samvinnu vegna viðgerðar og enduruppbyggingar Orkustöðvar OH á Hrísmóum við Húsavík. Kaupin eru háð samþykki nefndar um erlenda fjárfestingu en ákvörðun nefndarinnar liggur ekki fyrir.

Global Geothermal er í meirihlutaeigu ástralska orkufyrirtækisins Wasabi Energy Ltd. Það einbeitir sér að raforkuframleiðslu úr jarðvarma.

Ástæðan fyrir áhuga fyrirtækisins á stöðinni, sem er ónothæf í dag, er svokölluð Kalina-tækni sem fyrirtækið hefur einkaleyfi á. Stöðin var sú fyrsta sem notaðist við tæknina. Með Kalína-tækni er raforka framleidd með varma frá lághitasvæði. Með henni framleiðir orkustöðin rafmagn úr vatni sem er 121°C, áður en vatnið er nýtt fyrir hitaveitu bæjarins. Með tækninni er raforka framleidd með varma frá lághitasvæðinu á Hveravöllum í nágrenni Húsavíkur.

Global Geothermal er kappsmál að raforkuframleiðsla hefjist að nýju í Orkustöðinni og á seinni hluta ársins 2010 fóru Global Geothermal og dótturfyrirtæki þess ítarlega yfir vélbúnað og ágalla stöðvarinnar. Að lokinni ítarlegri úttekt var það mat Global Geothermal að unnt væri að koma Orkustöðinni í fulla vinnslu á ný.

Samningar hafa nú náðst um samvinnu fyrirtækjanna við viðgerð og endurbætur stöðvarinnar. Global Geothermal mun í raun yfirtaka stöðina á meðan viðgerð fer fram og mun viðgerðarkostnaður verða greiddur af Global Geothermal. OH mun leysa stöðina til sín aftur þegar sýnt hefur verið fram á rekstrarhæfni hennar samkvæmt tilkynningu.

Þegar haft var samband við Orkuveitu Húsavíkur var ekki gefið upp hversu háa upphæð Orkuveitan þyrfti að greiða fyrir stöðina ef breska fyrirtækinu tekst að koma henni aftur á laggirnar.

Framkvæmdastjóri OH, Guðrún Erla Jónsdóttir, tók svo skýrt fram að það er ekki verið að selja auðlindir með þessu samkomulagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×