Viðskipti innlent

Verulegur samdráttur í kaupum á atvinnuhúsnæði

Mjög hefur dregið úr viðskiptum með atvinnuhúsnæði í kreppunni. Í desember síðastliðnum var 129 kaupsamningum og afsölum um atvinnuhúsnæði þinglýst á landinu öllu samanborið við 154 í sama mánuði árið 2009.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að í sama mánuði árið 2006, þegar viðskiptin voru hvað mest á þessum markaði í aðdraganda hrunsins, var 229 kaupsamningum þinglýst . Fjöldi viðskiptanna í desember í fyrra var því rétt helmingur þess sem hann var í sama mánuði 2006. Kemur þetta fram í gögnum sem Þjóðskrá Íslands birti nýlega.

Það er í sjálfu sér afar eðlilegt að viðskipti með atvinnuhúsnæði dragist saman þegar heildareftirspurn í hagkerfinu dregst jafn mikið saman og hún hefur gert hér á landi frá hruni. Þannig hefur verslun dregist umtalsvert saman og fjöldi fyrirtækja í þeirri grein orðið gjaldþrota. Mikið var byggt af þessu húsnæði fyrir hrunið og nú stendur stór hluti þess auður og að hluta ókláraður í bið eftir næstu uppsveiflu.

Hrunið á þessum markaði hefur verið öllu meira á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni. Þannig voru viðskiptin með atvinnuhúsnæði ríflega 72% minni á síðasta ári með eignir á höfuðborgarsvæðinu í fyrra en á árinu 2006 en einungis ríflega 19% minni á landsbyggðinni. Á móti var þenslan á þessum markaði í aðdraganda hrunsins einnig öllu meiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.



Nú þegar vísbendingar berast víðsvegar úr hagkerfinu um að kreppan hafi náð botni virðist ekki hið sama gilda um markaðinn með atvinnuhúsnæði. Kreppan er þar enn að grafa sig dýpra. Þó hefur hægt á samdrættinum en hann var tæplega 13% á seinni hluta síðastliðins árs samanborið við tæplega 18% á fyrri hluta ársins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×