Viðskipti innlent

Ríkið þarf að leggja 3,5 milljarða í Byggðastofnun

Ef miða á við að Byggðastofnun haldi áfram óbreyttri lánastarfsemi má varlega áætlað reikna með að ríkissjóður þurfi að leggja stofnuninni til 3,5 milljarða króna á næstu fimm árum, þar af 2,5 milljarða til að koma eiginfjárhlutfalli hennar í 8%.

Þetta kemur fram í greinargerð starfshóps iðnaðarráðherra skipaði í nóvember s.l. til að fjalla um lánastarfsemi Byggðastofnunar.

Helstu niðurstöður starfshópsins eru m.a að reynslan sýnir að ekki virðist raunhæft að gera þá kröfu að Byggðastofnun varðveiti eigið fé að raungildi miðað við óbreytt hlutverk hennar við eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni.

Þegar horft er til umfangs starfsemi Byggðastofnunar er rétt að íhuga hvort ekki megi fækka fulltrúum í stjórn Byggðastofnunar en nú eru stjórnarmenn sjö talsins og jafnmargir til vara.

Verði lánastarfsemi Byggðastofnunar haldið áfram liggur beint við að huga að þróun fleiri fjármögnunartækja hjá stofnuninni og aðlaga fjármögnunarstarfsemina að aðstæðum í þjóðfélaginu. Reynslan sýnir að eftirspurn eftir lánum hjá stofnuninni dregst saman þegar mikill vöxtur er í landsframleiðslu.

Langflestar lánveitingar Byggðastofnunar á árunum 1999 - 2009 eru til fyrirtækja í sjávarútvegi og auk þess á svæðum sem eru fámenn, hafa glímt við mikla fólksfækkun undanfarin ár og eru fjarri höfuðborgarsvæðinu.

Um 4.000 störf eru á bak við útlán Byggðastofnunar á landsbyggðinni. Þar af eru 1.621 störf í sjávarútvegi. 1. desember 2010 voru 32% íbúa á vinnumarkaði í Vesturbyggð starfandi hjá fyrirtækjum sem eru í viðskiptum við Byggðastofnun.

Samkvæmt úttekt Creditinfo eru 29% fyrirtækja á starfssvæði Byggðastofnunar með áhættu umfram eðlileg mörk og 14% fyrirtækja fá alls ekki á sig áhættumat þar sem þar sem þau eru ógjaldfær eða í alvarlegum vanskilum.

Ný lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi geta ekki nema að mjög takmörkuðu leyti komið í stað lánastarfsemi Byggðastofnunar.

Byggðastofnun er ætlað að taka þátt í átakinu „Beina brautin" sem á að hraða úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Erfitt er að leggja mat á það hversu miklar fjárhagslegar byrðar það leggur á Byggðastofnun enda er átakið nýlega hafið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×