Viðskipti innlent

Miklar breytingar hjá ÍLS, sjóðurinn færður undir FME

Búast má við umfangsmiklum breytingum á því regluverki sem Íbúðalánasjóður (ÍLS) starfar undir á næstunni samhliða innspýtingu eigin fjár inn í sjóðinn. Hyggjast stjórnvöld færa ÍLS undir beint eftirlit Fjármálaeftirlitsins (FME) með ámóta hætti og aðrar fjármálastofnanir, auk þess sem eiginfjárkvaðir, og aðrar kröfur um fjárhagslegan styrk, verða samræmdar því sem gengur og gerist í fjármálakerfinu.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þetta má lesa úr viljayfirlýsingu stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) vegna 4. endurskoðunar á áætlun sjóðsins og stjórnvalda.

Í desember síðastliðnum samþykkti Alþingi að efla eiginfjárstöðu ÍLS um allt að 33 milljarða kr. í því skyni að koma eiginfjárhlutfalli sjóðsins upp í þau 5% mörk sem því er ætlað að vera að lágmarki. Í samþykkt Alþingis, sem og í viljayfirlýsingu stjórnvalda til AGS, var gert ráð fyrir að þetta framlag lægi fyrir í desemberlok. Ekki virðist það þó vera frágengið enn, og er allt á huldu um með hvaða hætti þessi innspýting muni eiga sér stað.

Þó má leiða að því líkur að henni verði mætt með frekari útgáfu á RIKH18-skuldabréfum líkt og lögð voru fram sem eiginfjárframlag ríkisins í nýju bankana og Byggðastofnun.

AGS lýsir í umsögn sinni um 4. endurskoðun ánægju með skref sem færa regluverk ÍLS og eftirlit með sjóðnum til samræmis við önnur lánafyrirtæki, en tímaáætlun þar að lútandi á að liggja fyrir. Ekki verður hjá því komist að hugleiða hvort þessar breytingar standi í sambandi við vilja Seðlabankans og AGS til þess að styrkja umgjörð peningastefnunnar í kjölfar afnáms hafta, m.a. með auknum völdum Seðlabankans til þess að hafa áhrif á lánshlutföll og jafnvel vaxtakjör lánastofnana.

Fyrirkomulag ÍLS hefur raunar lengi verið AGS nokkur þyrnir í auga, líkt og fleiri alþjóðastofnunum, enda fátítt að opinber húsnæðislánastofnun með ríkisábyrgð sé jafn umsvifamikil á lánamarkaði meðal iðnríkja og hér gerist.

Þess má geta að margir eru orðnir býsna langeygir eftir útgáfuáætlun ÍLS fyrir yfirstandandi ár, sem ekki hefur enn litið dagsins ljós. Undanfarin ár hefur sjóðurinn birt útgáfuáætlun í desember fyrir komandi ár, en enn sem komið er ríkir fullkomin óvissa um áætlaða útgáfu ÍLS á íbúðabréfum þetta árið, og þar með um vænt heildarframboð á verðtryggðum skuldabréfum með ríkisábyrgð. Væri til bóta ef sjóðurinn bætti úr þessu fyrr en síðar.

 

Aths. Maður sem kunnur er málefnum ÍLS bendir á að sjóðurinn hafi verið færður undir eftirlit FME þegar árið 2004. Það var gert með lagabreytingu á Alþingi sem kvað á um að hið sama gilti um sjóðinn og önnur fjármálafyrirtæki hvað eftirlit FME varðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×