Viðskipti innlent

Spáir því að verðbólgan lækki í 1,5% í febrúar

Greiningardeild Arion banka spáir 0,8% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í febrúar. Gangi spáin eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 1,5% samanborið við 1,8% í janúar.

Ársverðbólgan án áhrifa skattahækkana ríkisins verður hins vegar 1,3%. Útsölur ganga nú tilbaka og koma áhrifin fram í febrúar og mars.

„Bráðabirgðaspá okkar gerir ennfremur ráð fyrir að verbólgan mælist 0,5% í mars, 0,4% í apríl og 0,2% í apríl," segir í Markaðspunktum greiningarinnar þar sem fjallað er um verðbólguspánna.

Í Markaðspunktunum segir að helstu þættir í febrúarspánni séu eftirfarandi:

Útsölur ganga tilbaka. Sterk útsöluáhrif mældust í janúar (áhrif til lækkunar 0,9%). Greiningardeild gerir ráð fyrir að útsölur gangi að hluta tilbaka í febrúar (og restin kemur fram í mars). Heildaráhrif +0,45%.

Eldsneytisverð hækkar. Þrátt fyrir að bensíngjaldið hafi hækkað um áramótin þá koma áhrifin ekki fram fyrr en fyrst nú þar sem eldsneytisstöðvar ganga á birgðir sem fluttar voru inn eftir áramótin. Heildaráhrif +0,13%.

Flugfargjöld hækka. Sveiflukóngur vísitölunnar heldur sínu striki í febrúar og lækkunin í janúar gengur tilbaka í febrúar. Heildaráhrif +0,14%.

Matvörur hækka. Heimsmarkaðsverð á hrávörum hafa verið að hækka á síðustu mánuðum og mátti sjá áhrifin skila sér í verðlagið í síðustu mælingu Hagstofunnar. Þessu til viðbótar hefur krónan verið að veikjast. Samkvæmt heimildum frá birgjum þá eru að vænta frekari verðhækkana á næstunni. Gerum við ráð fyrir að heildaráhrif verði +0,10% í febrúar.

Lækkun húsnæðisliðar. Húsnæðisliðurinn (reiknuð leiga) lækkaði verulega í janúarmælingu Hagstofunnar. Hagstofan tekur þriggja mánaða hlaupandi meðaltal af mánaðarhækkunum og þessi lækkun í janúar mun því hafa áhrif í febrúar og mars mælingu Hagstofunnar. Heildaráhrif -0,10%.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×