Viðskipti innlent

Nokkuð dregur úr umfangi hópuppsagna á landinu

Nokkuð hefur dregið úr fjölda þeirra sem sagt hefur verið upp í hópuppsögnum á síðustu sex  mánuðum m.v. sama tímabil fyrir ári. Fjöldinn er 433 manns sem sagt hefur verið upp með þessum hætti s.l. sex mánuði samanborið við 532 á sama tímabili fyrir ári.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að tvær tilkynningar bárust Vinnumálastofnun um hópuppsagnir í janúar þar sem sagt var upp 140 manns. Þar af voru 129 manns í mannvirkjagreinum og 11 við rekstur sjúkrastofnunar. Uppsagnirnar koma til framkvæmda á tímabilinu mars til ágúst í ár. Kemur þetta fram í tilkynningu sem Vinnumálastofnun sendi frá sér í gær.

Hópuppsagnir nú í janúar voru töluvert fleiri en á sama mánuði í fyrra þegar sagt var upp störfum 60 manns í slíkum uppsögnum. Miklar sveiflur eru í þessu á milli mánaða og því réttara að skoða þróunina yfir lengri tíma til að sjá hvert stefnir í þessum efnum.

Þannig hefur ferkar dregið úr þeim fjölda sem heftur verið sagt upp í slíkum uppsögnum en undanfarna 6 mánuði hefur 433 verið sagt upp með þessum hætti samanborið við 532 á sama tímabili fyrir ári. Þá hafa tilkynningarnar verið 12 á síðustu 6 mánuðum samanborið við 22 á sama tímabili fyrir ári.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×