Viðskipti innlent

Allt að 10% verðmunur á matvörukörfunni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Matvörukarfan var ódýrust í Bónus. Mynd/ Vilhelm.
Matvörukarfan var ódýrust í Bónus. Mynd/ Vilhelm.
Allt að 10% verðmunur reyndist vera á matvörukörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslununum á mánudaginn. Matvörukarfan var ódýrust í Bónus þar sem hún kostaði 12.881 krónur en dýrust í Nettó á 14.177 krónur. Verðmunurinn var 1.296 krónur eða 10%. Aðeins 2% verðmunur var á matarkörfunni milli Bónus og Krónunar og innan við 1% verðmunur var á milli Kosts og Nettó.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá ASÍ var mestur verðmunur í könnuninni á rauðum eplum sem voru dýrust á 359 kr./kg. í Nettó, en ódýrust á 195 kr./kg. í Kosti verðmunurinn er 164 kr./kg. eða 84%. Mikill verðmunur var einnig á rúðuúða/gluggapússi sem var dýrastur á 500 kr/l. í Bónus en ódýrastur í Krónunni á 316 kr/l. verðmunurinn er 184 kr/l. eða 58%. Uppþvottalögur frá Fairy var dýrastur á 714 kr/l. í Nettó en ódýrastur á 458 kr/l. í Bónus sem er 56% verðmunur. Hafrakexið frá Haust var dýrast á 1.240 kr./kg. í Kosti en ódýrast á 844 kr./kg. í Bónus sem er 47% verðmunur.

Enginn verðmunur var í könnuninni á forverðmerktri grófri lifrarkæfu frá Alí hún kostar 1.593 kr./kg. í öllum fjórum verslununum. Minnstur verðmunur var á kíló af Merrild kaffi sem var ódýrast í Kosti á 1.290 kr./kg. en dýrast í Nettó á 1.318 kr./kg. sem er 2% verðmunur. Gullauga kartöflur voru dýrastar á 112 kr./kg. í Krónunni og Nettó, en þær voru ódýrastar á 109 kr./kg. í Kosti sem er 3% verðmunur.

Matarkarfan samanstendur af 33 almennum neysluvörum til heimilisins ss. mjólkurvörum, brauði, morgunkorni, grænmeti, kjöti, fiski, drykkjarvörum, ásamt ýmsum pakkavörum, dósamat og fleiru. Könnunin var gerð á sama tíma í verslunum Bónus Faxafeni, Krónunni Granda, Nettó Breiðholti og Kosti Dalvegi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×