Viðskipti innlent

Loðnukvóti HB Granda tvöfaldast milli ára

Myndin er af vefsíðu HB Granda.
Myndin er af vefsíðu HB Granda.

Samkvæmt upplýsingum Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, má reikna með því að af 125 þúsund tonna auknum loðnukvóta komi um 100 þúsund tonn í hlut Íslendinga. Heildarkvóti skipa HB Granda gæti því orðið um 44 þúsund tonn. Til samanburðar má nefna að loðnukvóti þeirra á síðustu vertíð var um 20.500 tonn.

Þetta kemur fram á vefsíðu HB Granda en sem kunnugt hefur verið ákveðið að auka loðnukvótann á yfirstandandi vertíð úr 200.000 tonnum og í 325.000 tonn.

Á vefsíðunni kemur fram að nú er verið að landa um 1.100 tonnum af loðnu úr Ingunni AK á Vopnafirði og þar með er afli skipa HB Granda kominn í um 11 þúsund tonn á vertíðinni. Samkvæmt því gætu eftirstöðvar loðnukvótans verið um 33 þúsund tonn.

Tvö skipa HB Granda, Ingunn og Lundey NS, eru nú á loðnuveiðum en Faxi RE, sem kom með um 670 tonna loðnuafla til Vopnafjarðar um helgina, er farinn til gulldepluveiða í stað Ingunnar sem kom með um 500 tonn af gulldeplu til Akraness sl. fimmtudag.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×