Viðskipti innlent

Telur heimild skorta fyrir sölu ríkisins á hlut sínum í Byr

Hafsteinn Hauksson skrifar
Þingmaður í stjórnarandstöðu gagnrýnir að kaupverð hafi ekki verið gefið upp við sölu ríkisins á Byr og telur að fjármálaráðherra skorti heimild alþingis til að selja hlutinn. Hún er uggandi um framhaldið á sölu fjármálafyrirtækja.

Á miðvikudag var tilkynnt að náðst hefðu samningar við slitastjórn Byrs og Fjármálaráðuneytið um að Íslandsbanki tæki allt hlutafé Byrs yfir. Fjármálaráðuneytið hefur hins vegar neitað að gefa upp hvert söluverðið í viðskiptunum er. Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknar og fulltrúi í viðskiptanefnd alþingis, segir vinnubrögðin mjög einkennileg, og telur fjármálaráðherra skorta heimild til að ganga endanlega frá sölunni.

„Það er þannig að eina stofnunin sem getur heimilað sölu á eigum ríkisins er alþingi," segir Eygló. „Þó að fjármálaráðherra sé búinn að skrifa undir einhverja samninga um sölu á eignum ríkisins, þá er það bara alþingi sem getur samþykkt það."

Alþingi hafi til dæmis samþykkt lög sem heimiluðu sölu og uppgjör stóru bankanna, en Eygló veit ekki til þess að slík heimild liggi fyrir í tilfelli Byrs. Hún segir eðlilegt að kjörnir fulltrúar á Alþingi fái að vita hvernig staðið var að sölunni á Byr, og telur að það sé fordæmalaust að verð sé ekki gefið upp í sambærilegri sölu á eignum ríkisins.

„Það hefur tekið tíma fyrir okkur að fá upplýsingar um það, en ekki þannig að það liggi fyrir yfirlýsing um það frá fjármálaráðherra að hann hafi ekki í hyggju að upplýsa um söluverðið. Það hefur komið fram að hann vonist til að fá þær 900 milljónir sem ríkissjóður lagði fram við stofnun bankans til baka, en sé ekki viss um það. Það er algjörlega óásættanlegt að þingið fái ekki upplýsingar um þetta," segir Eygló.

Hún segist uggandi um framhaldið á sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum i ljósi vinnubragðanna.

„Það komu mjög skýrar ábendingar um það frá rannsóknarnefnd alþingis að ekki hefði verið ásættanlegt hvernig staðið var að einkavæðingu ríkisfyrirtækja fyrir hrun, og það þyrfti að bæta vinnubrögðin hvað það varðaði. Þessi ríkisstjórn fullyrti að hún ætlaði að tryggja gagnsæi og betri vinnubrögð, en ef eitthvað er finnst mér menn hafa farið aftur á við frekar en fram hvað þetta varðar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×