Handbolti

HM í handbolta í Katar árið 2015

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Katar á ágætt landslið í handbolta sem tók þátt í HM 2003, 2005 og 2007.
Katar á ágætt landslið í handbolta sem tók þátt í HM 2003, 2005 og 2007. Nordic Photos / AFP

Katar ætlar að hita upp fyrir HM í knattspyrnu árið 2022 með því að halda HM í handbolta eftir fjögur ár. Þetta var tilkynnt í dag.

Þá var einnig ákveðið að HM kvenna færi fram í Danmörku árið 2015, sama ár og karlakeppnin verður haldin í Katar. EM kvenna í handbolta var haldið í Danmörku nú í síðasta mánuði.

Katar hafði betur í baráttu við Frakkland, Pólland, Danmörku og Noreg en franskir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að sigur Katars hafi verið naumur.

HM var fyrst haldið utan Evrópu í Japan árið 1997 og svo aftur í Túnis árið 2005. HM 2013 fer fram á Spáni.

Í höfuðborginni Doha eru nú þegar þrjár hallir sem hægt verður að nota í keppniinni en hver tekur um fimm þúsund áhorfendur í sæti. Sú fjórða er í byggingu en hún mun taka um fimmtán þúsund áhorfendur í sæti.

Í umsókn Katars kemur einnig fram að öll 24 keppnisliðin munu dvelja á sama hótelinu.

Hassan Moustapha, forseti Alþjóða handknattleikssambandsins, var ánægður með niðurstöðuna.

„Allar fimm umsóknirnar voru mjög góðar en því miður gat aðeins ein unnið í kosningunni. Að öðru leyti veit ég ekki hvernig niðurstaða kjörsins var en öll löndin sem sendu inn umsókn eru í allra fremsta flokki."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×