Handbolti

Þurfum að vera á tánum til að halda okkur á toppnum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Vísir ræddi ítarlega við Guðmund Guðmundsson landsliðsþjálfara eftir lokaleik íslenska liðsins á HM. Þar var Guðmundur meðal annars spurður út í framtíðina og hvort íslenska liðið væri að fjarlægjast þau bestu á nýjan leik.

"Við þurfum að skoða hvað gerðist. Við spiluðum frábærlega í riðlinum en þar var enginn léttur leikur. Við þurftum að spila alla leiki á fullri ferð. Síðustu tveir leikirnir gegn Austurríki og Noregi voru síðan gríðarlega erfiðir.

"Við hittum ekki á það gegn Þjóðverjum á meðan þeir eiga mjög góðan leik. Það verður spennufall enda vonbrigðin mikil þar sem við ætluðum okkur meira. Við ætluðum okkur í undanúrslit og menn sáu þann möguleika hverfa sér eftir þann leik.

"Eftir það var á brattann að sækja. Engu að síður er ég geri þetta upp er ekki hægt að kvarta. Ef það hefði verið sagt við mig fyrir mót hvort það væri gott að ná einu af sex efstu sætunum og sæti í undankeppni ÓL þá hefðu flestir sagt já.

"Það var ekki innistæða fyrir betri árangri á þessu móti. Ég var svartsýnn í október en okkur tókst að búa til frábæra vörn á fáum dögum. Hún skilaði okkur þessu sjötta sæti og það í riðlinum. Ég er ánægður með það en engu að síður vorum við ekki nógu góðir til að fara lengra að þessu sinni. Við verðum að átta okkur á því," sagði Guðmundur og staðfesti að liðið hefði sett stefnuna á gullið.

Ísland tapaði sannfærandi fyrir Spánverjum og Frökkum og lá svo einnig fyrir Króatíu. Er Ísland að fjarlægjast þessi lið á nýjan leik?

"Ég held við verðum að skoða okkar gang. Ég var samt sáttur við sóknarleikinn gegn Frökkum en við gáfum eftir varnarlega.

"Ég held við séum ekki að fjarlægjast þessi lið en við verðum að vera á tánum til þess að halda okkur á toppnum. Ef efstu liðin eru skoðuð geta allir unnið hvorn annan. Við erum nálægt efstu liðunum," sagði Guðmundur en verður hann áfram með landsliðið?

"Eins og staðan er í dag er ekkert annað í spilunum. Við sjáum hvað verður. Nú þarf aðeins að fá frí og hugsa málið og svo sjáum við hvað setur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×